„Sérhver kona ætti að eignast sex börn“

Ummæli Maduro hafa vakið upp hörð viðbrögð enda bendir margt …
Ummæli Maduro hafa vakið upp hörð viðbrögð enda bendir margt til þess að landið sé ekki í stakk búið til að taka á móti fjölda nýbura. AFP

Nicolás Maduro, forseti Venesúela, hvatti konur í landinu til að eignast sex börn hverja „í þágu landsins“ í sjónvarpsþætti um heilsu kvenna í gærkvöldi. Milljónir Venesúelabúa hafa flúið heimaland sitt vegna mikillar kreppu í landinu og vöktu ummæli Maduros mikla reiði. Guardian greindi frá þessu.

„Eignist börn! Hver einasta kona á að eignast sex börn! Hver einasta! Í þágu landsins!“ sagði Maduro.

Verðbólgan í Venesúela náði tæpum 10.000% í fyrra og er þar mikill skortur á matvælum og lyfjum. Áætlað er að vannæring hrjái um 13% barna í landinu. 

Vannæring hindrar brjóstagjöf

Ríkisstjórn Venesúela hefur ekki birt tölur um ungbarnadauða síðan árið 2017 þegar tilkynning frá heilbrigðisráðuneyti landsins leiddi í ljós að 11.466 börn hefðu látist árið áður en var þar um að ræða 30% stökk í ungbarnadauða. 

Flótti fólks frá landinu hefur valdið því að um ein milljón barna er munaðarlaus í Venesúela.

„Sjúkrahús sinna ekki skyldum sínum, bóluefni eru af skornum skammti, konur geta ekki haft börn á brjósti vegna þess að þær eru vannærðar eða keypt mjólk fyrir börn sín vegna þess að þær hafa ekki efni á því,“ tísti Manuela Bolivar stjórnarandstæðingur í kjölfar þess að Maduro lét ummælin falla. 

Réttindahópar kvenna lýstu einnig yfir reiði sinni. Einn slíkur lýsti því yfir að ummæli Maduros væru óviðunandi og bætti því við að konur væru meira en bara leg, þær væru borgarar sem ættu að njóta mannréttinda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert