Segir yfirvöld ala á óþarfa ótta

Ørjan Olsvik, prófessor í læknisfræðilegri örverufræði við Háskólann í Tromsø, …
Ørjan Olsvik, prófessor í læknisfræðilegri örverufræði við Háskólann í Tromsø, segir norsk heilbrigðisyfirvöld fara offari í spám sínum um afleiðingar kórónuveirunnar og bendir á að hættueiginleikar veirunnar séu mun takmarkaðri en venjulegrar flensu. Ljósmynd/Norski herinn

Ørjan Olsvik, prófessor í læknisfræðilegri örverufræði við Háskólann í Tromsø, gagnrýnir Lýðheilsustofnun Noregs fyrir að draga upp mun dekkri mynd af kórónuveirufaraldrinum en efni standi til og valda Norðmönnum þar með óþarfa ótta og skelfingu.

Þegar svínaflensan svokallaða gerði strandhögg í Noregi árið 2009 lét Olsvik frá sér sams konar gagnrýni og hafði reyndar lög að mæla. Norsk heilbrigðisyfirvöld létu þá í veðri vaka að 1,2 milljónir Norðmanna gætu tekið sóttina og 13.000 látist úr henni. Var þegar hafist handa við fjöldabólusetningar sem kostuðu 550 manns alvarlegar aukaverkanir. Alls létust 30 manns í Noregi úr svínaflensu.

Olsvik, einn fremstu sérfræðinga Noregs á sviði veirufræði og farsótta, telur Lýðheilsustofnun nú gera sömu mistök þegar kórónuveiran er annars vegar.

Fólk tapar rökhugsuninni

„Það hjálpar engum að hræða fólk, ekkert bendir til þess að þetta rætist,“ sagði Olsvik við norska dagblaðið Aftenposten í gær (læst öðrum en áskrifendum) og vísaði til áhættumats Lýðheilsustofnunar frá 25. febrúar þar sem því var slegið fram að færi allt á versta veg gætu 70 prósent Norðmanna smitast af kórónuveiru.

Prófessorinn segir sjálfsagt að fara varlega og gera ráðstafanir til að fyrirbyggja smit. Slíkt sé hins vegar mun betur unnið í krafti heilbrigðrar skynsemi en ótta. „Ég hef starfað á svæðum þar sem ebóla geisar og séð hve lamandi óttinn er. Fólk tapar rökhugsuninni, gerist sjálfhverft og tekur ekki tillit til aðstæðna,“ sagði Olsvik frá.

Í grein sinni „Óttist ekki kórónuveiruna“ (n. Frykt ikke korona), sem norska ríkisútvarpið NRK birti 24. febrúar, skrifaði Olsvik að veirufaraldrar væru alla jafna ekki eins skæðir og fólk gerði ráð fyrir, hvort sem þar færu HIV, SARS, MERS, ebóla eða svínaflensa.

„Það er veira“

„Okkur finnst við þurfa, til öryggis, að hafa dálitlar eða jafnvel miklar áhyggjur,“ skrifaði Olsvik, „kórónuveiran er ekki hættuleg þorra fólks. Þeir sem eru látnir voru veikir fyrir. Kórónuveiran er venjuleg veira sem er vægari en hefðbundin flensa. Vandamálin byrja þegar yfirvöld fá móðursýkiskast, þá öpum við eftir þeim. Lítið höfum við lært og erum fljót að gleyma því að við höfum lent í þessu oft áður án þess að stórhætta sé á ferð.“

Olsvik rifjaði því næst upp þegar hann var við störf í Sóttvarnamiðstöð í Atlanta í Bandaríkjunum (Centers for Diseases Control and Prevention) árið 1984 og nýr vágestur stóð á dyraþrepi heimsbyggðarinnar, HIV-veiran.

„Snemma morguns 23. apríl 1984 biðu skilaboð handskrifuð á gulan miða: „Það er veira“ og ekkert meir. Við áttuðum okkur öll á því hvað gerst hafði. Það var orðið ljóst að eyðni var veirusjúkdómur og var smitandi.

Hræðslukastið var hafið. HIV-smitaðir urðu „lífshættulegir“ og samkynhneigðir máttu þola ofsóknir og mismunun. Heilbrigðisstofnun Noregs spáði því að á bilinu 30.000 til 100.000 Norðmenn yrðu smitaðir árið 1990. Sú tala var 1.000.

Nú tölum við varla um HIV, smittilfellum hefur snarfækkað vegna nýrra lyfja sem halda sjúklingnum frískum og koma í veg fyrir að hann sé smitandi. Flestir geta dáið með sjúkdóminn, ekki úr honum.“

Milli 600 og 900 Norðmenn deyja úr flensu

Varaði Olsvik í niðurlagi greinar sinnar við því að hrópa úlfur úlfur, slíkt yrði bara til vandræða daginn sem úlfurinn loks kemur. Flestum væri kunnugt um að ótti er sjaldnast til heilsubótar.

Í áðurnefndu samtali við Aftenposten segir prófessorinn enn fremur að norsk heilbrigðisyfirvöld áætli dauðalíkur af völdum kórónuveirunnar 0,4 á hver hundrað tilfelli samanborið við 0,1 þegar venjuleg flensa eigi í hlut.

Hvert ár deyja milli 600 og 900 Norðmenn úr flensu og segist Olsvik brugðið verði kórónuveiran svo mörgum Norðmönnum að aldurtila. Hann segir hlutfallslega mun færri munu deyja í Noregi en í Kína þar sem norska heilbrigðiskerfið sé betra, búseta mun dreifðari og heilsa eldri íbúa landsins almennt góð.

Höfuðatriðið sé því að hindra útbreiðslu veirunnar í Noregi. „Hvern einasta bæjarbruna hefði mátt slökkva með einu vatnsglasi á réttum tímapunkti,“ segir Ørjan Olsvik, prófessor í læknisfræðilegri örverufræði, við Aftenposten en hér má enn fremur hlýða á hann í hlaðvarpsviðtali við Nordlys.no 27. febrúar.

mbl.is