Hætta ekki við kosningafundi þrátt fyrir veiru

Donald Trump hélt kosningafund í Nýju-Karólínu í vikunni.
Donald Trump hélt kosningafund í Nýju-Karólínu í vikunni. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ekki hafa nein áform um að aflýsa kosningafundum, þrátt útbreiðslu kórónuveirunnar. Smit var á dögunum staðfest í nokkurra kílómetra fjarlægð frá Hvíta húsinu.

Forsetinn var ákveðinn er hann ávarpaði blaðamenn við Mar-a-Lago, dvalarstaðinn í Flórída. „Við munum halda stórkostlega kosningafundi og okkur gengur mjög vel og við höfum gert frábæra hluti með tilliti til þess,“ sagði Trump er hann var spurður hvort fundaherferð hans, undir slagorðinu Höldum Ameríku frábærri (Keep America Great) héldi áfram. Þá sagðist hann ekki hafa áhyggjur af því þótt veiran hefði greinst í höfuðborginni.

Greint var frá því í gær að maður sem sat ráðstefnuna Conservative Political Action Conference í lok febrúar hefði verið greindur með kórónuveiruna. Trump og Mike Pence varaforseti voru báðir meðal ráðstefnugesta, en í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu segir að maðurinn hafi ekki haft neitt samneyti við forsetann og varaforsetann auk þess sem hann tók engan þátt í viðburðum í aðalsal ráðstefnunnar.

Trump er ekki einn um að halda áfram fjöldafundum þrátt fyrir tilmæli yfirvalda um að forðast slíka. Joe Biden og Bernie Sanders, sem keppast um að verða forsetaefni Demókrataflokksins, hafa einnig haldið sínu striki.

Stuðningsmenn Joe Biden létu veiruáhyggjur ekki stöðva sig, og söfnuðust …
Stuðningsmenn Joe Biden létu veiruáhyggjur ekki stöðva sig, og söfnuðust saman til að berja varaforsetann fyrrverandi augum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert