Harris lýsir yfir stuðningi við Biden

Joe Biden og Kamala Harris.
Joe Biden og Kamala Harris. AFP

Kamala Harris, öldungadeildarþingmaður demókrata og fyrrverandi frambjóðandi til forseta, hefur lýst yfir stuðningi við Joe Biden, fyrrverandi varaforseta, í baráttunni fyrir útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins. 

„Biden hefur þjónað landinu okkar með reisn og við þörfnumst hans nú meira en nokkru sinni,“ segir Harris á Twitter. „Við þurfum leiðtoga sem er annt um fólk og getur sameinað þjóðina,“ bætti hún við.

Harris bætist nú í hóp fyrrverandi frambjóðenda sem hafa lýst yfir stuðningi við Biden en fyrir hafa Pete Buttigieg, Amy Klobuchar, Michael Bloomberg og Beto O'Rourke öll lýst yfir stuðningi við varaforsetann fyrrverandi.

Harris dró framboð sitt til forseta til baka í desember. Áður hafði hún gagnrýnt Biden fyrir að hafa farið jákvæðum orðum um tvo þingmenn sem studdu kynþáttaaðskilnað fyrri tíma. Sagði hún við það tækifæri að hún teldi Biden ekki vera rasista, en bætti við: „Það særir að heyra þig tala um orðspor tveggja öldungardeildarþingmanna sem byggðu feril sinn á aðskilnaði kynþátta í þessu landi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert