Weinstein dæmdur í 23 ára fangelsi

Harvey Weinstein.
Harvey Weinstein. AFP

Harvey Weinstein hefur verið dæmdur í 23 ára fangelsi af dómstóli í New York, tveimur vikum eftir að hann var fundinn sekur um nauðgun og kynferðisárás.

Dómarinn James Burke hunsaði beiðni verjenda kvikmyndamógúlsins fyrrverandi um að dæma hann í mesta lagi í fimm ára fangelsi.

Weinstein hefði mest getað fengið 29 ára dóm fyrir brotin tvö samanlögð. Báðum konunum sem Harvey var dæmdur fyrir að hafa brotið á var fagnað ákaflega er þær gengu inn í dómsalinn í dag ásamt fjórum vitnum. 

Weinstein var ýtt inn í salinn í hjólastól. Megan Twohey og Jodi Kantor, blaðamenn New York Times sem greindu fyrstar frá brotum Harveys í fjölmiðlum, voru einnig viðstaddar dómsuppkvaðninguna. 

Önnur kvennanna sem Weinstein braut á, Miriam Haley, sagði við dómsuppkvaðninguna að Harvey hefði ekki einungis svipt hana reisn sinni heldur hefði hann einnig tekið af henni sjálfstraustið. Haley bætti því við að sér hefði liðið eins og hún væri eins síns liðs þegar hún gekk í gegnum áfallið sem fylgdi árásinni. Nú hefði hún loksins fundið rödd sína. 

„Það er kominn tími á að fólk sem nauðgar öðru fólki borgi með lífi sínu.“

Báðar konurnar báðu dómarann að dæma Weinstein til 29 ára fangelsisvistar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert