Dæmdur til dauða fyrir fjöldamorð

Satoshi Uematsu.
Satoshi Uematsu. AFP

Þrítugur maður, Satoshi Uematsu, var í dag dæmdur til dauða í Japan fyrir að hafa myrt 19 fatlaða íbúa á dval­ar­heim­ili þar sem hann starfaði árið 2016.

Satoshi Uematsu, sem starfaði á dvalarheimilinu á þessum tíma, hefur aldrei neitað sök en verjendur hans héldu því aftur á móti fram að hann væri saklaus og að hann hafi glímt við andleg veikindi á þessum tíma. Veikindi sem megi rekja til mikillar neyslu á kannabis.

Forseti dómstólsins, Kiyoshi Aonuma, hafnaði þessu og sagði að Uematsu ætti ekki skilið miskunn. Hann hafi tekið líf 19 einstaklinga, hann hafi skipulagt morðin og ekki um handahófskennda ákvörðun að ræða.

Eft­ir að Uematsu var hand­tek­inn bár­ust frétt­ir af því að hann hefði tjáð lög­reglu að hann teldi sig hafa bjargað fórn­ar­lömb­um sín­um frá því að lifa með fötl­un. Hann er sagður hafa lýst því yfir að hann vildi út­rýma öllu fötluðu fólki og vöktu gjörðir hans mikla reiði í Jap­an og víðar, en skömmu áður en hann lét til skar­ar skríða hafði hann verið skikkaður inn á geðspít­ala fyr­ir að hafa viðrað þær skoðanir sín­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert