Aftöku frestað vegna veirunnar

Aftökuklefi.
Aftökuklefi. AFP

Bandarískur dómstóll hefur úrskurðað að fresta skuli aftöku í Texas um 60 daga vegna kórónuveirunnar.

Aftakan átti að fara fram í dag. Áfrýjunardómstóll hafnaði áfrýjunarbeiðni John Hummel en ákvað engu að síður að fresta aftökunni.

„Við höfum einnig ákveðið að aftökunni skuli frestað vegna núverandi ástands í heilbrigðisgeiranum og þess mikla fjölda fólks sem þarf að kalla til vegna aftökunnar,“ sagði í úrskurðinum.

Hummel, sem er 44 ára, var dæmdur til dauða fyrir að hafa árið 2009 myrt ófríska eiginkonu sína, fimm ára dóttur þeirra og tengdaföður sinn.

Það átti að taka hann af lífi með sprautu í fangelsi í Huntsville í Texas. Eins og í öllum aftökum átti hópur fólks að vera viðstaddur aftökuna, þar á meðal fangaverðir, lögmenn og vitni ásamt fjölskyldum Hummels og fórnarlamba hans.

Heilbrigðisyfirvöld hafa varað við því að hópar fólks safnist saman vegna veirunnar. Fleiri aftökur eru fyrirhugaðar í Bandaríkjunum á næstunni, þar á meðal í Texas 25. mars.

Líklegt er að lögmenn áfrýi málum skjólstæðinga sinna á þeim grundvelli að koma þurfi í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar.

Í gær höfðu 100 manns dáið af hennar völdum í Bandaríkjunum og að minnsta kosti 6.300 smitast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert