Maxwell höfðar mál gegn dánarbúi Epstein

Ghislaine Maxwell á samkomu árið 2014.
Ghislaine Maxwell á samkomu árið 2014. AFP

Ghislaine Maxwell, fyrrverandi kærasta barnaníðingsins Jeffrey Epstein, hefur höfðað mál gegn dánarbúi hans og segist ekkert hafa vitað um kynferðisbrot hans.

Maxwell krefst bóta vegna lögfræðikostnaðar og kostnaðar vegna öryggismála sem hún hefur innt af hendi vegna tengsla sinna við Epstein, að því er kemur fram í dómskjölum. Hann framdi sjálfsvíg í fangelsi í fyrra.

Málið var höfðað 12. mars á Jómfrúareyjum þar sem Epstein átti hús. Fram kemur að Maxwell „tengdist ekkert eða vissi af meintum brotum Epstein“.

Epstein var 66 ára þegar hann hengdi sig í fangaklefa sínum í New York er hann beið er réttarhalda eftir að hafa verið ákærður fyrir mansal.

Þó nokkrir hafa haldið því fram að Maxwell, sem er dóttir fjölmiðlamógúlsins sáluga Roberts Maxwell, hafi útvegað Epstein stelpur til kynferðislegra athafna.

Bandarískir saksóknarar hafa reynt að ná tali af Maxwell en hún hefur ekki verið ákærð þar í landi vegna málsins.

mbl.is