Óttast lélegar sóttvarnir í fangelsum

Um 2,2 milljónir fanga eru í bandarískum fangelsum en það …
Um 2,2 milljónir fanga eru í bandarískum fangelsum en það er tæplega fjórðungur allra fanga í heiminum. AFP

Á sama tíma og kórónuveiran breiðist hratt út í Bandaríkjunum hafa vaknað upp spurningar um sóttvarnir í fangelsum landsins.

Hvergi í heiminum er hlutfall fanga jafn hátt og í Bandaríkjunum. Sérfræðingar vara við því að þegar smit greinist í fangelsi muni það breiðast hratt út þar. 

Í grein sem birt er í vefritinu The Marshall Project er talað við Christopher Blackwell, 38 ára, sem afplánar 45 ára dóm í Washington-ríki fyrir morð og rán. Hvergi í Bandaríkjunum hafa jafn margir látist af völdum veirunnar og í Washington-ríki.

Blackwell segir að það hafi ekki komið honum á óvart að frétta í síðustu viku að starfsmaður fangelsins hafi greinst smitaður af COVID-19. Viðbrögð fangelsismálayfirvalda hafi ekki heldur komið á óvart. Þau hafi sett upp auglýsingar við síma í fangelsinu þar sem fangarnir eru  beðnir um að setja sokka, já sem þú notar yfirleitt á fæturna, á símtólið áður en þeir tala í síma til að koma í veg fyrir smit. 

Eins hefur föngum verið ráðlagt að gæta hreinlætis en spritt er bannað þar sem það inniheldur alkóhól. Lítið fer fyrir tuskum sem fangar geta notað til að hreinsa með. Blackwell hefur mestar áhyggjur af eldri föngum þar sem þeir séu í mestri hættu. Hann segist ekki vita hvernig eigi að verja þá þegar talið er að fangelsin séu eins og eldspýtnastokkur fyrir veiru eins og COVID-19.

Um 2,2 milljónir fangar eru í bandarískum fangelsum en það er tæplega fjórðungur allra fanga í heiminum. Mannúðarsamtök, læknar og þingmenn hafa varað við afleiðingum þess þegar kórónuveiran fer að herja á fangelsi landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert