Fjölgar í hópi þeirra sem snúa smitaðir heim

Kínverskir heilbrigðisstarfsmenn sinna sjúklingi í Wuhan.
Kínverskir heilbrigðisstarfsmenn sinna sjúklingi í Wuhan. AFP

Eng­in ný kórónuveirusmit inn­an­lands voru til­kynnt í Kína í gær, þriðja daginn í röð. Hins vegar greindu kínversk heilbrigðisyfirvöld frá þvi að enn fjölgaði í hópi þeirra sem sneru smitaðir heim til Kína frá öðrum löndum.

Hægt hefur á smiti í Kína á síðustu vikum á meðan faraldurinn hefur náð mikilli útbreiðslu í Evrópu og Bandaríkjunum.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar WHO, hrósaði Kínverjum fyrir það hvernig þeim gekk að hefta útbreiðsluna í Wuhan, þar sem kórónuveiran kom fyrst fram í lok síðasta árs. 

„Wuhan veitir heiminum von um að það sé hægt að snúa erfiðri stöðu við,“ sagði Ghebreyesus á fréttamannafundi í gær.

Alls var tilkynnt 41 smit síðasta sólarhringinn vegna fólks sem kom aftur til Kína eftir ferðalag utan landsteinanna. Hafa slík smit ekki verið fleiri á sólarhring.

Alls hafa 269 ferðalangar komið með kórónuveiruna til Kína. Höfuðborgin Peking og aðrir staðir hafa gripið til þess ráðs að setja alla í 14 daga sóttkví við komuna þangað. Auk þess hafa verið gerðar fjöldatakmarkanir á ferðalöngum sem fá að koma til Kína.

Alls hafa rúmlega 81 þúsund smitast í Kína og 3.255 dauðsföll, þar af sjö á síðasta sólarhring.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert