Hermenn finna lík á dvalarheimilum

Eldri borgara hjálpað úr sjúkrabíl á Spáni.
Eldri borgara hjálpað úr sjúkrabíl á Spáni. AFP

Spænskir hermenn, sem eiga að hjálpa til við að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar þar í landi, hafa fundið yfirgefna eldri borgara og einhverja sem hafa látist úr sjúkdómnum á dvalarheimilum.

Þetta kom fram í máli varnarmálaráðherra Spánar, Margaritu Robles.

Hún sagði að stjórnvöld myndu taka hart á slæmum aðbúnaði eldra fólks á dvalarheimilum.

„Hermenn fundu fólk sem hafði verið yfirgefið og sumir lágu látnir í rúmunum,“ sagði Robles í samtali við spænska fjölmiðla.

Hermenn hafa verið fengnir til að sótthreinsa dvalarheimili aldraðra á Spáni en kórónuveiran hefur leikið landið grátt.

Alls hafa 2.182 látist af völdum veirunnar en 462 létust síðasta sólarhringinn.

Eldra fólk er sérstaklega viðkvæmt fyrir veirunni og yfirvöld víða um heim kalla eftir frekari aðgerðum til að vernda þá eldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert