Kórónuveiran komin til Sýrlands

Sennilega verður ekki möguleiki að halda uppi sóttvörnum á stöðum …
Sennilega verður ekki möguleiki að halda uppi sóttvörnum á stöðum sem þessum. Hvað verður um fólkið sem býr í Idlib? AFP

Fyrsta tilfelli kórónuveirunnar hefur verið staðfest í Sýrlandi. Þar hefur þegar verið gripið til ráðstafana til að hefta útbreiðslu veirunnar en stríð hefur geisað í landinu í níu ár og helmingur landsmanna þurft að flýja heimili sitt. 

Heilbrigðisráðherra Sýrlands, Nizar Yaziji, greindi frá smitinu seint í gærkvöldi og sagði að viðkomandi hafi verið að koma frá útlöndum án þess að tilgreina hvaðan. Um er að ræða konu um tvítugt. 

Mynd frá Sýrlandi í síðustu viku.
Mynd frá Sýrlandi í síðustu viku. AFP

Undanfarna daga hafa stjórnvöld í Damaskus gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir útbreiðslu COVID-19. Meðal annars hefur skólum verið lokað, veitingastöðum, kvikmyndahúsum og samkomusölum. Bann hefur verið lagt við því að hópar komi saman og biðji. Eins hefur mörgum opinberum byggingum og stofnunum verið lokað og á morgun verða almenningssamgöngur milli héraða aflagðar. 

Kórónuveiran er komin til Sýrlands.
Kórónuveiran er komin til Sýrlands. AFP

Í síðustu viku var þingkosningum frestað tímabundið en þær áttu að fara fram í næsta mánuði.

Yfir 380 þúsund Sýrlendingar hafa dáið í stríðinu og eru allir innviðir landsins lamaðir. Óttast er hverjar afleiðingarnar af farsóttinni verði í Sýrlandi, ekki síst á þeim svæðum þar sem sprengjum hefur rignt yfir fólk undanfarna mánuði. Má þar nefna Idlib-hérað þar sem stjórnarherinn með stuðningi Rússa hefur drepið þúsundir almennra borgara í loftárásum undanfarna mánuði. Hið sama á við um héruð Kúrda í norðausturhluta Sýrlands. 

Búðir í Kafr Jalis-þorpinu norður af Idlib-borg. Fólkið sem býr …
Búðir í Kafr Jalis-þorpinu norður af Idlib-borg. Fólkið sem býr þar hefur hrakist að heiman. AFP

„Stríðið í Sýrlandi heldur í dag upp á enn ein skammarleg tímamót sín,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, í tilefni af því að níu ár eru síðan átök hófust í Sýrlandi. Átök sem enn sér ekki fyrir endann á. 

„Nú þegar stríðið er á tíunda ári munu milljónir barna hefja annan áratug í lífi sínu umkringd stríði, ofbeldi, dauða og flótta. Þörfin fyrir frið hefur aldrei verið brýnni.“

UNICEF segir að rúmlega 4,8 milljónir barna hafi fæðst í Sýrlandi síðan átökin hófust fyrir níu árum. Þar að auki hefur ein milljón barna fæðst á flótta í nágrannalöndum. 

Síðan opinberar talningar hófust árið 2014 til ársins 2019 hafa meira en 9 þúsund börn látið lífið eða særst lífshættulega í átökunum. Nærri 5 þúsund börn, sum allt niður í sjö ára gömul, hafa verið neydd til hermennsku og til að taka þátt í stríðinu. Nærri eitt þúsund mennta- og heilbrigðisstofnanir hafa sætt árásum, samkvæmt upplýsingum frá UNICEF en tekið er fram að um opinberar tölur sé að ræða og væntanlega séu réttar tölur enn hræðilegri.

mbl.is