Lokun landsins geti valdið meira tjóni

Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddi við fréttamenn.
Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddi við fréttamenn. AFP

„Við munum ekki leyfa þessu að hafa langvarandi efnahagsleg áhrif á landið,“ sagði Donald Trump, Bandaríkjaforseti, á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í kvöld. Vísaði hann í máli sínu til kórónuveirunnar sem farin er að hafa veruleg áhrif á efnhagslífið þar í landinu. Á fundinum var hann spurður hvenær landið yrði opnað að nýju sagði Trump að það yrði gert fyrr en síðar. „Það mun ekki líða langur tími þar til við munum opna að nýju,“ sagði Trump. 

Nú er liðin vika frá því að ríkisstjórnin þar í landi gaf út 15 daga leiðbeiningar sem miðuðu að því að draga úr líkum á smiti. Sagði Trump að ákvörðun um hvenær landið yrði opnað að nýju yrði tekin á næstunni og ekki myndu líða margar vikur ,frá því að framangreindur dagafjöldi er liðinn, og þar til landið yrði opnað.  

Lækningin má ekki valda meiri skaða

Samhliða því að opna landið yrði áfram unnið að aðgerðum sem miða að því að vernda eldri borgara og einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma. Að auki yrði áfram lögð rík áhersla á fjarlægð milli einstaklinga og sóttvarnir. Einnig kom fram í máli forsetans að líkur væru á því að viðskipti færu fljótlega af stað í ríkjum þar sem tíðni veirusýkingar er lægri á meðan harðari aðgerðir héldu áfram í ríkjum með hærri sýkingartíðni.

Sagði Bandaríkjaforseti að ef ákvörðun um lokun væri einungis í höndum lækna þá „væri heimurinn í heild sinni lokaður“. Slíkt væri hins vegar ekki í boði þar sem skaði af lokun landsins til lengri tími væri sennilega meiri en af völdum veirunnar.  „Lækningin má ekki vera valda meiri skaða en vandinn sjálfur“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert