Þar sem handþvottur er munaður

Handþvottur til að koma í veg fyrir að kórónuveiran breiðist út er skipun dagsins víða um heim en handþvottur er munaður sem milljónir íbúa Jemen geta ekki látið eftir sér. Í landi þar sem hreint vatn er ekki að fá.

AFP

Heilbrigðiskerfi Jemen er í lamasessi og er óttast að um leið og COVID-19 kemur til landsins verði fjandinn laus. Afleiðingarnar verði svo skelfilegar að það sé ekki hægt að hugsa þær til enda. Átök hafa litað líf íbúa í Jemen um árabil og orðið til þess að Sameinuðu þjóðirnar hafa biðlað til heimsins um að koma fólki sem býr við mestu neyðina í heiminum til hjálpar. 

Nú fimm árum eftir að hersveitir undir forystu Sádi-Araba hófu hernaðaraðgerðir í Jemen til að styðja stjórnarher Jemen í baráttunni við uppreisnarsveitir húta, sem njóta hernaðaraðstoðar frá Írönum, þurfa um 80% íbúa Jemen á neyðaraðstoð að halda. Alls eru Jemenbúar 30 milljónir talsins.

AFP

Mannúðarsamtökin Læknar án landamæra (MSF) segja að stór hluti Jemena hafi hvorki aðgang að hreinu vatni né sápu og það sé alvarlegt áhyggjuefni. „Við erum gríðarlega áhyggjufull,“ segir Caroline Seguin, sem stýrir aðgerðum MSF í Jemen. „Við mælum með því að fólk þvoi sér um hendurnar en hvað ef það hefur ekkert til þess að þvo sér með?“

Tæplega 18 milljónir landsmanna, þar á meðal 9,2 milljónir barna, hafa ekki aðgang að hreinu vatni í Jemen, samkvæmt upplýsingum frá UNICEF og aðeins þriðjungar þjóðarinnar hefur aðgang að vatnsleiðslum.

AFP

Mohammed er 11 ára gamall og býr með fjölskyldu sinni í Hajja-héraði norður af höfuðborginni Sanaa. Svæði sem er undir stjórn uppreisnarmanna. Hann er einn þeirra fjölmörgu sem hefur ekki aðgang að rennandi vatni. 

Hann og systir hans fara á hverjum morgni með asna og fylla vatnsdunka af grugguðu vatni í um þriggja km fjarlægð frá heimili þeirra. „Ég geri asnann kláran og síðan leggjum við af stað klukkan 7:30 og ég fer fram og til baka þangað til klukkan er orðin 10,“ segir Mohammed í viðtali við AFP-fréttastofuna. 

AFP

Börnin tvö standa í biðröð eftir vatni og þegar röðin kemur að þeim fylla þau plastdunkinn af vatni með aðstoð skítugrar slöngu. Fjölskylda þeirra hefur ekkert val um annað en að drekka óhreint vatn og nota það í eldamennsku. 

Fyrir þremur árum geisaði kólerufaraldur í Jemen og bresku mannúðarsamtökin OXFAM sögðu í dag að líklega megi gera ráð fyrir öðrum slíkum nú þegar rigningartímabilið hefst. Kólerufaraldur á sama tíma og farsótt af völdum COVID-19 geisar í heiminum. 

Allt flug til og frá landinu hefur verið stöðvað, hertar reglur gilda um hjálparstofnanir og dreifingu neyðaraðstoðar í landinu, samkvæmt OXFAM. Aðeins helmingur heilbrigðisstofnana í landinu eru opnar og þær sem það eru glíma við skort á lyfjum, búnaði og starfsfólki. 

AFP

Í fimm ár hefur líf Jemena litast af dauða, farsóttum og að fólk sé á hrakhólum. Nú á þjóðin yfir höfði sér að alheimsfaraldur nái til landsins með skelfilegum afleiðingum. Jemenar þurfa sárlega á því að halda að stríðandi fylkingar taki sig saman og semji um vopnahlé, segir Muhsin Siddiquey, framkvæmdastjóri OXFAM í Jemen. 

Tugþúsundir almennra borgara hafa verið drepnir í stríðinu í Jemen undanfarin fimm ár og síðustu ár hefur stór hluti þjóðarinnar glímt við hungursneyð. Ekkert bendir til þess að átökin séu í rénum og því fátt sem getur komið í veg fyrir frekari hörmungar í landi þar sem heilbrigðisþjónustan er í molum. 

AFP

Mohammed Aqil, sem er læknir við Al-Jaada-heilsugæsluna í Hajja, segir að á hverjum degi leiti þangað um 300 sjúklingar. „Í flestum tilvikum er það vegna sjúkdóma sem smitast með óhreinu vatni sem er ekki öruggt til neyslu,“ segir hann í samtali við AFP. 

Að þvo sér vel og vandlega sem oftast um hendurnar er besta vörnin gegn kórónuveirunni en hvað mun rúmlega helmingur jemensku þjóðarinnar gera? Því þau hafa ekki aðgang að hreinu vatni, segir í færslu alþjóða Rauða krossins í Jemen á Twitter. AFP
AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina