Í sóttkví með krúttlegum pokadýrum

Quokka-dýrin eru lítil pokadýr sem eiga rætur sínar að rekja …
Quokka-dýrin eru lítil pokadýr sem eiga rætur sínar að rekja til suðvesturhluta Ástralíu. Ljósmynd/Flickr/Peter Ichman

Hundruð farþega skemmtiferðaskipsins Vasco de Gama munu verja næstu vikum í sóttkví á áströlsku eyjunni Rottnest Island við vesturströnd Ástralíu, en á eyjunni eru heimaslóðir pokadýra sem nefnast quokkas og eru stundum kölluð hamingjusömustu dýr í heimi.

Um 800 farþegar eru um borð í Vasco de Gama, en til stóð að skipið kæmi til hafnar í Perth á föstudag. Þar hafa yfirvöld hins vegar bannað komu skemmtiferðaskipa og -farþega til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar, og varð því úr að farþegarnir færu í sóttkví á Rottnest-eyju áður en þeim verður hleypt í land á meginlandi Ástralíu.

Ástralir eru einstaklega strangir á reglur um skemmtiferðaskip eftir að 2.700 farþegar úr slíku skipi komu í land í Sydney á dögunum og 130 þeirra reyndust smitaðir af kórónuveirunni.

Quokka-dýrin eru eins og áður segir lítil pokadýr sem eiga rætur sínar að rekja til suðvesturhluta Ástralíu. Quokkur eru í útrýmingarhættu, en þau eru sérstaklega fjölmenn á Rottnest-eyju þar sem þeim steðjar engin hætt frá rándýrum. Rottnest er hins vegar vinsæll áfangastaður ferðamanna, sem taka gjarnan sjálfur með dýrunum og hefur verið varað við því að svo mikil athygli geti reynst quokkunum hættuleg.


Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert