Nafngreindu níðinginn

AFP

Ungur maður, sem er sakaður um að haf leitt hóp sem kúgaði stúlkur til þess að deila kynferðislegum myndskeiðum af sér, var nafngreindur af lögreglu í Suður-Kóreu í dag vegna þrýstings frá almenningi.

Myndskeiðunum var dreift á spjallrásum þar sem fólk greiddi fé fyrir að horfa á stúlkurnar. Að minnsta kosti tíu þúsund einstaklingar nýttu sér spjallrásina og greiddi fólk allt að 1.200 Bandaríkjadali, sem svarar til 168 þúsund króna, fyrir aðgang að spjallrásinni á netinu.

74 stúlkur, þar af 16 á barnsaldri, voru kúgaðar af hópnum, segir í frétt BBC. Afar sjaldgæft er að níðingar séu nafngreindir í Suður-Kóreu áður en þeir eru ákærðir en lögreglan ákvað að gera það eftir að fimm milljónir höfðu undirritað áskorun þar að lútandi. Maðurinn, Cho Ju-bin, er 24 ára gamall. „Ég bið þá afsökunar sem ég olli skaða,“ sagði Cho þegar hann var leiddur út af lögreglustöð í Seúl af lögreglu í dag. „Þakka ykkur fyrir að stöðva líf djöfuls sem var óstöðvandi,“ bætti hann við og talaði þar um sjálfan sig. Hann svaraði ekki spurningum fréttamanna um hvort hann hefði játað sök. 

Cho er sakaður um misnotkun, hótanir, nauðung og að hafa brotið gegn börnum, einkalífi fólks og kynferðisbrot.

Viðskiptavinir spjallrásarinnar greiddu fyrir aðgang að svokölluðum „nth-herbergjum“ þar sem myndefni, sem stúlkurnar voru þvingaðar til að gera, var sýnt á rauntíma. Greiddu áhorfendur frá 200-1.200 Bandaríkjadali fyrir aðgang. 

Frétt BBC

Margar af stúlkunum höfðu strokið að heiman og voru virkar á spjallforritum eða Twitter. Ýmsar höfðu boðið upp á kynlífsþjónustu þar er hópurinn nálgaðist þær með loforðum um fyrirsætustörf eða við fylgdarþjónustu. 

Þær voru síðan tældar inn á Telegram aðgang þar sem nöfnum þeirra, símanúmerum, heimilisföngum, vinalistum og myndum var safnað saman og upplýsingarnar síðan nýttar til að þvinga þær til þess að búa til kynferðisleg myndskeið. 

Ein þeirra segir í viðtali við CBS útvarpsstöðina að hún hafi verið að leita sér að vinnu þegar haft var samband við hana á netinu. Eftir að hafa verið lofað peningum og síma var hún beðin um að senda myndir af sjálfri sér og síðan kynferðisleg myndskeið. Hún segir að alls hafi myndskeiðin verið um 40 talsins sem hún tók þátt í.

Að sögn lögreglu hafa 124 verið handteknir í aðgerðum lögreglu en viðkomandi tóku þátt í rekstri 18 slíkra spjallrása. Enn hefur ekki tekist að hafa upp á manni sem gengur undir heitinu GodGod en hann er grunaður um að hafa sett upp fyrstu spjallrásina af þessu tagi í Suður-Kóreu. 

mbl.is