Þjáningin hvergi eins mikil og í New York

Útsýni yfir borgina frá Brooklyn í dag. Um 15.000 smit …
Útsýni yfir borgina frá Brooklyn í dag. Um 15.000 smit hafa verið staðfest í New York og nærri 200 dauðsföll. AFP

Borgarstjóri New York borgar, Bill de Blasio, segir borgina í miðju kórónuveirufaraldursins og að hvergi annars staðar sé þörf á meiri aðstoð. „Hvergi annars staðar er þjáningin eins mikil,“ segir borgarstjórinn í færslu á Twitter. 

Hann segir aðgerðapakka sem öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær sem bjarga á banda­rísku efna­hags­lífi og millj­ón­um Banda­ríkja­manna sem hafa orðið illi­lega fyr­ir barðinu á kór­ónu­veirunni hvergi nærri duga. Aðgerðapakk­inn hljóðar upp á tvær bill­jón­ir (millj­ón millj­ón­a) Banda­ríkja­dala.

„Það er ekki það sem við þurfum til að berjast gegn faraldrinum í stærstu borg landsins,“ segir de Blasio í færslu á Twitter. Hann segir sjúkrahús vera við það að verða uppiskroppa með aðföng, fyrirtæki neyðist til að loka og að útlit sé fyrir fordæmalaust atvinnuleysi í borginni. 

 

Um 15.000 smit hafa verið staðfest í borginni og nærri 200 dauðsföll. Nokkrir dagar eru síðan veiran náði útbreiðslu um öll Bandaríkin og eru staðfest smit nú yfir 60 þúsund og dauðsföllin 827 og hefur þeim fjölgað um rúmlega 200 síðastliðinn sólarhring. 

Aðeins í Kína og á Ítalíu hafa fleiri smit greinst. Spálíkan sem kynnt var á Bandaríkjaþingi fyrr í þessum mánuði gerir ráð fyrir að á bilinu 70 til 150 milljónir geti smitast af kórónuveirunni í Bandaríkjunum.

Bill de Blasio, borgarstjóri New York.
Bill de Blasio, borgarstjóri New York. AFP
mbl.is