40.000 vinnustaðir í Noregi í hættu

Sala nýrra bifreiða í Noregi nemur nú þriðjungi af því …
Sala nýrra bifreiða í Noregi nemur nú þriðjungi af því sem gera má ráð fyrir í meðalári. Formaður Samtaka norskra bifreiðainnflytjenda segir verksmiðjur um alla Evrópu loka dyrum sínum og ekki bæti hríðversnandi staða norsku krónunnar úr skák. AFP

Sala nýrra bifreiða í Noregi hefur hrunið svo, að hún nemur nú rúmlega þriðjungi þess sem almennt verið hefur. Þeir sem til þekkja í þessum geira norsks viðskiptalífs segja norska ríkisútvarpinu NRK að 40.000 vinnustaðir í landinu sem tengist bílgreininni séu í hættu en þeir velti samanlagt 250 milljörðum norskra króna, jafnvirði rúmlega 3.300 milljarða íslenskra.

„Salan hrynur frá degi til dags, skórinn kreppir á allar hliðar,“ segir Erik Andresen, formaður Samtaka norskra bifreiðainnflytjenda.

Hann segir 14 milljónir manns starfa við bifreiðatengdar greinar í Evrópu einni og útlitið sé vægast sagt dökkt. Andresen, eins og fjöldamargir aðrir talsmenn ólíkra atvinnugreina í Noregi undanfarið, krefur Ernu Solberg forsætisráðherra og ríkisstjórn hennar tafarlausra úrræða til bjargar norsku atvinnulífi en eins og mbl.is greindi frá í fyrradag hefur atvinnuástand í Noregi ekki staðið á viðlíka heljarþröm síðan á dögum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Veik staða krónu bæti ekki úr skák

„Við vitum ekki hvaða verksmiðjur eru að loka sem flækir málin þegar bifreiðaumboð ætla sér að panta ný ökutæki,“ segir Andresen og bætir því við að ekki bæti veik staða norsku krónunnar úr skák, innkaupsverð nýrra bifreiða hafi sjaldan ef nokkurn tímann verið hærra.

Stærsta bifreiðaumboð Noregs, Møller Mobility Group, sem meðal annars fer með umboðið fyrir Volkswagen í Noregi, hefur sent 750 starfsmenn heim með úrræði sem í Noregi kallast permittering og er ekki uppsögn heldur vægara úrræði sem felur í sér að starfsfólk er ekki í vinnu ákveðið tímabil en heldur þó stórum hluta launa sinna. Greiðir þá vinnuveitandi hluta og norska vinnumálastofnunin NAV hluta á móti.

„Verkefnastaðan á flestum verkstæða okkar er góð en við sjáum að sala nýrra bifreiða hefur tekið dýfu síðan gripið var til aðgerðanna gegn kórónuveirunni,“ segir Anders Rikter, upplýsingafulltrúi bifreiðaumboðsins Bertel O. Steen, sem meðal annars rekur umboð fyrir Mercedes-Benz í Noregi.

Erik AndresenHann segir evrópska bifreiðaframleiðendur marga hverja hafa lokað verksmiðjunum sem setji óneitanlega strik í reikninginn, til dæmis þann reikning sem snýr að pöntunum sem gjarnan eru gerðar mánuði fram í tímann.
„Við höfum rætt við fjölda viðskiptavina sem hafa pantað hjá okkur og flestir þeirra hyggjast enn standa við pöntunina. Einhverjir hafa þó afpantað og auðvitað óttumst við að veikari efnahagsstaða fólks komi niður á pöntunum.“

Standa vörð um vinnustaðina

Egil Steinsland, upplýsingafulltrúa norska bílgreinasambandsins, er einnig þungt í skapi. „Þetta er grafalvarlegt og við upplifum nú mikla vargöld sem fæstum í greininni dylst. Við erum algjörlega háð viðskiptavinum okkar, komi þeir ekki getum við ekki greitt laun. Flestir félagar okkar [bílgreinasambandsins] hafa sent starfsfólk heim og búa sig undir hið versta,“ segir hann. 
Upplýsingafulltrúinn biðlar til norsks almennings að láta ekki deigan síga, fara áfram með heimilisbílinn á verkstæði eða kaupa nýjan bíl eða notaðan.
„Við verðum að standa vörð um vinnustaðina og það snýst ekki bara um okkur [bílgreinina], við verðum að halda áfram að notfæra okkur þjónustu smiða og pípulagningamanna líka, láta hjólin snúast,“ segir Egil Steinsland að lokum í ákalli sínu til norskra neytenda sem nú upplifa mestu þrengingar síðan landið var hernumið af Þjóðverjum í síðari heimsstyrjöldinni.
mbl.is