Áskorendamótinu í skák frestað

Sigurvegari mótsins átti að tefla við Magnus Carlsen um heimsmeistaratitilinn …
Sigurvegari mótsins átti að tefla við Magnus Carlsen um heimsmeistaratitilinn í haust. AFP

Fyrr í morgun bárust fréttir af því að áskorendamótinu í Katrínarborg í Rússlandi hefði verið frestað um óákveðinn tíma. Ástæðan er sögð vera sú að yfirvöld ætla að takmarka flugumferð frá og með morgundeginum. Þetta kemur fram á síðunni skák.is.

Mótið hófst á þriðjudaginn í síðustu viku og þá leit út fyrir að Rússar ætluðu að halda því til streitu að klára mótið þrátt fyrir stöðuna sem upp er komin í heiminum vegna kórónuveirunnar.

Til Katrínarborgar voru mættir snjöllustu skákmeistarar heims þar sem þeir ætluðu að grúfa sig yfir reitina næstu vikurnar. Úr því verður hins vegar ekki í bili og nú er unnið hörðum höndum að því að koma keppendum frá Rússlandi áður en allar flugleiðir lokast.

mbl.is