Loka Moskvu í viku

Sobyanin segir aðgerðirnar fordæmalausar en algjörlega nauðsynlegar.
Sobyanin segir aðgerðirnar fordæmalausar en algjörlega nauðsynlegar. AFP

Borgarstjóri Moskvu hefur ákveðið að láta aðgerðir Vladimírs Pútín Rússlandsforseta ganga enn lengra í borginni, en þar skal loka öllum kaffihúsum, verslunum, görðum og annarri ónauðsynlegri þjónustu í viku frá og með laugardegi.

Pútín tilkynnti í gær um að allir dagar í næstu viku yrðu almennir frídagar svo að flestum vinnustöðum yrði lokað auk þess sem skólahald félli niður. 

Sergei Sobyanin, borgarstjóri Moskvu, hefur nú tilkynnt að gengið verði enn lengra í borginni, en hann hafði áður fyrirskipað Rússum yfir 65 ára aldri að halda sig heima. Borgarstjórinn tekur það sérstaklega fram að borgarbúar ættu þó ekki að líta á þetta sem frí, heldur alvöru aðgerðir til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar.

Sergei Sobyanin, borgarstjóri Moskvu.
Sergei Sobyanin, borgarstjóri Moskvu. AFP

Sobyanin segir aðgerðirnar fordæmalausar en algjörlega nauðsynlegar. Tilkynnt var um tvö dauðsföll vegna COVID-19 í Moskvu í gær, en þau eru þau fyrstu sem tilkynnt hefur verið um í landinu öllu. Samkvæmt opinberum tölum hafa 840 tilfelli kórónuveirunnar greinst á landsvísu í Rússlandi.

mbl.is