Myndi ekki óska óvini sínum að fá kórónuveiruna

Andy Hardwick hvetur fólk til að taka útbreiðslu kórónuveirunnar alvarlega.
Andy Hardwick hvetur fólk til að taka útbreiðslu kórónuveirunnar alvarlega. skjáskot/myndband

Myndband af 51 árs gömlum breskum karlmanni sem er sárlasinn af COVID-19 sjúkdómnum sem kórónuveiran veldur hefur farið eins og eldur í sinu á netinu. Maðurinn er í fantaformi og fer vanalega að minnsta kosti þrisvar sinnum í viku í ræktina en á ákaflega erfitt með að draga andann. Myndbandið hefur verið skoðað tæplega 75 þúsund sinnum og birtist á Guardian.   

Maðurinn, Andy Hardwick, hvetur fólk til að taka þessu alvarlega og fara eftir fyrirmælum yfirvalda, virða hvort annað og halda sig í fjarlægð hvort frá öðru. „Ég myndi ekki óska óvini mínum að fá þennan sjúkdóm,“ segir hann. Sjálfur fær hann stöku sinnum astma. 

Hann lýsir nákvæmlega sjúkdómseinkennum sínum. Í fyrstu fékk hann þuran hósta og hálssærindi og slappleiki helltist yfir hann en áfram var hann hitalaust. Eftir nokkra klukkutíma svefn vaknaði hann með hita og átti erfitt með að draga andann. Beinverkir helltust yfir hann og helst af öllu vildi hann liggja í rúminu því allt var erfitt, tala og hlæja. 

Kona hans óttaðist um hann en sem betur fer þurfti hann ekki að leggjast inn á sjúkrahús. Hún lýsir því að hún hafi ekki þekkt eiginmanna sinn því allt þrek og fjör var horfið. Sárast þótti henni að geta ekki tekið utanum hann. 

Núna virðist hann vera á batavegi og á auðveldara með að draga andann.  

mbl.is