Skaut föstum skotum á Kínverja

Mike Pompeo á blaðamannafundi.
Mike Pompeo á blaðamannafundi. AFP

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að leiðtogar sjö helstu iðnríkja heims séu á einu máli um að Kínverjar hafi ekki sagt satt og rétt frá útbreiðslu kórónuveirunnar. Hann segir einnig að samherjar hans frá Evrópu ætli að vinna saman í baráttunni gegn veirunni.

Utanríkisráðherrar frá sjö helstu iðnríkjunum ræddu saman um stöðu mála á myndbandsfundi eftir að hafa hætt við að hittast í Pittsburgh í Bandaríkjunum. Engin sameiginleg yfirlýsing var gefin út eftir fundinn sem þykir gefa til kynna að ekki hafi verið einhugur ríkjandi.

Verksmiðja í Wuhan sótthreinsuð.
Verksmiðja í Wuhan sótthreinsuð. AFP

Pompeo, sem hefur gagnrýnt yfirvöld í Peking harðlega og kallað kórónuveiruna „Wuhan-veiruna“, sagðist vera á sama máli og diplómatar hinna ríkjanna, Bretlands, Kanada, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Japans. „Allar þjóðirnar á fundinum í morgun voru sammála um að herferð kínverska kommúnistaflokksins hefði dreift röngum upplýsingum til að afvegaleiða umræðuna um hvað var í raun og veru í gangi,“ sagði Pompeo við blaðamenn.

Frá Wuhan í Kína.
Frá Wuhan í Kína. AFP

Hann sagði að Kínverjar „hafi verið og haldi áfram“ að halda úti herferð á samfélagsmiðlum þar sem samsæriskenningum er meðal annars haldið á lofti um þátt Bandaríkjamanna í útbreiðslu veirunnar.

„Þetta er klikkuð umræða,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert