Var Bland fyrsti Bretinn sem smitaðist?

Bærinn Ischgl í Týrol í Austurríki hefur verið vinsæll á …
Bærinn Ischgl í Týrol í Austurríki hefur verið vinsæll á meðal skíðamanna. AFP

Fjölskylda frá East Sussex gæti hafa verið sú fyrsta á Bretlandi til að smitast af kórónuveirunni, eða um miðjan janúar. Ef þetta reynist rétt þá hófst útbreiðsla veirunnar innan Bretlands mánuði fyrr en hingað til hefur verið talið.

Eins og staðan er núna er fyrsta tilfellið hjá smituðum Breta skráð 31. janúar og fyrsta skráða tilfellið um smit innan Bretlands 28. febrúar.

Daren Bland, fimmtugur, var í skíðaferðalagi í Ischgl í Austurríki frá 15. til 19. janúar ásamt þremur vinum, tveimur frá Danmörku og einum frá Minnesota í Bandaríkjunum, að því er The Telegraph greindi frá.

Allir mennirnir veiktust við komuna heim og smitaði Bland eiginkonu sína og börn í bænum Maresfield af veirunni. Í framhaldinu veiktust mörg önnur börn í bænum og gátu ekki mætt í skólann.

Austurrískir saksóknarar hafa hafið rannsókn á ásökunum um að smitinu í Ischgl hafi verið leynt. Hundruð manna frá Þýskalandi, Íslandi, Noregi og Danmörku fóru á skíði í Ischgl og smituðust þar af kórónuveirunni. Talið er að Bland og fjölskylda hans séu þau fyrstu frá Bretlandi til að smitast.

Skíðabar sem hefur verið lokað í Ischgl í Austurríki.
Skíðabar sem hefur verið lokað í Ischgl í Austurríki. AFP

Fóru á barinn Kitzloch

Bland fór, eins og svo margir aðrir Evrópubúar sem smituðust, á barinn Kitzloch sem er þekktur fyrir partí að lokinni skíðaiðkun. Drykkjuleikurinn „beer pong“ hefur verið vinsæll þar sem fólk skiptist á að spýta út úr sér sömu borðtenniskúlunni ofan í bjórglas.

„Við fórum á Kitzloch og þar var alveg troðið. Fólk var að syngja og dansa uppi á borðum,“ sagði Bland. „Fólk var sveitt og þreytt eftir að hafa verið á skíðum og þjónarnir færðu fólki hundruð skota á borðin þeirra. Þær væri ekki hægt að finna betri gróðrastíu fyrir veiruna.“

The Telegraph hefur birt myndskeið sem var tekið inni á barnum þar sem fylgjast má með stemningunni.

Veikur heima í tíu daga

Bland sneri heim til sín í Maresfield sunnudaginn 19. janúar og veiktist morguninn eftir. Hann var veikur í tíu daga og komst ekki upp úr rúminu fyrstu dagana. Í framhaldinu veiktist kona hans Sarah Bland og var hún slöpp í næstum þrjár vikur. Dætur þeirra tvær veiktust einnig, sú yngri í tvær vikur en sú eldri í einn dag.

mbl.is