40 ár frá Kielland-slysinu

Alexander L. Kielland hægra megin og Edda 2/7 C til …
Alexander L. Kielland hægra megin og Edda 2/7 C til vinstri á Ekofisk-svæðinu miðja vegu milli Noregs og Skotlands. Ljósmynd/Olíuminjasafnið í Stavanger/Norsk oljemuseum

Það var um kvöldmatarleytið 27. mars 1980 sem 212 starfsmenn norska olíuborpallsins Alexander L. Kielland fundu fyrir þungu höggi sem skók allan pallinn sem þá var staðsettur á Ekofisk-vinnslusvæðinu úti fyrir Stavanger.

Aftakaveður hafði geisað á svæðinu allan daginn, hreint fárviðri, og var það trú flestra um borð að enn ein aldan hefði skollið á pallinum. Svo var þó ekki í þetta sinnið. Einn af fimm fótum borpallsins, sem var svokallaður „semi-submersible“, það er að segja flotpallur borinn uppi af stuðningssúlum eða -fótum, hafði brotnað í ölduganginum.

Kielland, sem hét eftir borgarskáldi Stavanger, var í eigu fyrirtækisins Stavanger Drilling en starfræktur af Phillips Petrolium, í dag Conoco-Phillips, tók í einu vetfangi dýfu og hallaðist um 35 gráður.

D6-fóturinn sem brotnaði eftir að sprunga, lítil í fyrstu, hafði …
D6-fóturinn sem brotnaði eftir að sprunga, lítil í fyrstu, hafði myndast í honum. Við það kom slagsíða á Alexander L. Kielland sem hallaðist í fyrstu 35 gráður áður en hann snerist alveg á hvolf. Ljósmynd/Olíuminjasafnið í Stavanger/Norsk oljemuseum

Kielland flaut við hlið framleiðslupallsins Edda 2/7 C og var tengdur honum með göngubrú. Íbúðaraðstaða var á Kielland, eins konar gámaeiningar sem olíuvinnslumenn sváfu í milli vakta. Einnig var þar kvikmyndahús, mötuneyti og fleira til að gera lífið bærilegra á tveggja til þriggja vikna löngum lotum hverrar áhafnar í Norðursjónum.

Öll skip send á vettvang

Vakthafandi loftskeytamaður sendi þegar í stað út neyðarkall, Mayday, á VHF-rás númer níu sem allir pallarnir á Ekofisk-svæðinu hlustuðu á. Voru öll skip í nágrenni við Ekofisk beðin að halda tafarlaust á vettvangt þess stórslyss sem þarna átti eftir að verða. Sea King-björgunarþyrlur voru þegar ræstar út frá Stavanger og Skotlandi.

Þeir fyrstu úr áhöfninni koma í land á Sola-flugvellinum við …
Þeir fyrstu úr áhöfninni koma í land á Sola-flugvellinum við Stavanger. Ljósmynd/Olíuminjasafnið í Stavanger/Norsk oljemuseum

Skelfing greip nú um sig á Alexander Kielland. Þung tæki og útbúnaður runnu undan hallanum og juku þar með enn á hann auk þess sem öll lausleg húsgögn í íbúðarhlutanum höfðu endaskipti og lokuðu enn fremur mörg hver dyrum svo örðugra varð um vik að komast út.

Um tíma leit út fyrir að Kielland ætlaði að liggja kyrr, nánast kominn á hliðina. Sjór fossaði hins vegar inn í vistarverur á þilfarinu og ofan í þá fætur pallsins sem komnir voru undir yfirborð sjávar. Um það bil klukkan 19:00 þennan örlagaríka fimmtudag fyrir 40 árum hvolfdi Alexander Kielland og stóðu botnfletir stuðningsfótanna einir upp úr sjónum.

Sátu fastir í káetum

Sjö vélknúnir björgunarbátar, hver með rými fyrir 50 manns, voru á pallinum. Fæstir komust hins vegar í bátana. Hópur manna sat og horfði á kvikmynd í kvikmyndahúsinu þaðan sem aðeins var ein útgönguleið. Aðeins hluti þeirra komst út. Aðrir sátu fastir í káetum sínum með rúm og önnur húsgögn kirfilega njörvuð upp við lokaðar dyr.

Nánast kraftaverk var að 26 manns komust í einn bátanna, undir þyrlupallinum, sem eru þannig útbúnir að stjórnandi, sem kominn er inn í bátinn, tjakkar hann upp af tveimur krókum sem halda honum. Fyrri króknum losnuðu þeir af en náðu ekki að losa af þeim síðari. Báturinn losnaði því að hluta og hékk utan í pallinum, aðeins um tvo metra yfir sjávarmáli vegna halla pallsins, en bátarnir eru hannaðir til að þola tuga metra fall ofan af þilfari borpalla.

Frá björgunaraðgerðum á svæðinu. Edda 2/7 C er pallurinn sem …
Frá björgunaraðgerðum á svæðinu. Edda 2/7 C er pallurinn sem sést. Ljósmynd/Olíuminjasafnið í Stavanger/Norsk oljemuseum

Slóst báturinn utan í pallinn og stýrishúsið brotnaði. Þar með tókst einum hinna 26 að teygja sig út og losa af síðari króknum sem varð til þess að báturinn féll í sjóinn og náði áhöfnin að sigla burt frá pallinum.

Aðrir voru ekki eins heppnir og tókst aðeins að losa báta númer 3, 4 og 7 að hluta. Héngu þeir því utan á pallinum og mölbrotnuðu að lokum þar sem þeir slógust utan í hann í sjóganginum.

Alexander L. Kielland úr lofti eftir slysið og sést neðan …
Alexander L. Kielland úr lofti eftir slysið og sést neðan á stuðningsfætur pallsins sem lá alveg á hvolfi í greipum Ægis. Ljósmynd/Olíuminjasafnið í Stavanger/Norsk oljemuseum

Í bát númer 5 komust 14 manns. Báturinn var sjósettur en hvolfdi nær strax. Mannskapurinn kom sér þá út og náði með samstilltu átaki að koma bátnum á réttan kjöl. Björguðu fjórtánmenningarnir svo 19 öðrum um borð sem líklega varð þeim til lífs.

Aðeins sjö manns tókst að hífa um borð í nágrannapallinn Edda 2/7C með eins konar búri eða personkurv eins og það heitir á norsku.

Dreginn inn í Gandsfjorden

Alls tóku 19 björgunarþyrlur og 80 skip þátt í aðgerðum á staðnum sem stóðu fram á 29. mars. Alls tókst að bjarga 89 manns, 123 létust, þar af fundust 87, 36 hvíla enn í hinni votu gröf hafsins. Af þeim sem fundust uppgötvuðust sex eftir að pallurinn hafði verið dreginn inn í Gandsfjorden við Stavanger og Sandnes í Rogaland þar sem honum var snúið við. Snúningurinn gekk þó ekki vandræðalaust og það var ekki fyrr en í september 1983 sem Alexander L. Kielland komst á réttan kjöl á ný.

Ítarleg rannsókn leiddi í ljós að lítil sprunga hefði verið komin í burðarfótinn sem brotnaði. Hún kostaði 123 menn lífið. Ekkjur og börn hinna látnu fengu greiddar bætur í kjölfar réttarhalda. Lægstu bæturnar voru ekki háar, líklega rúmar 700.000 íslenskar krónur að núvirði. Hæstu bæturnar fengu þeir sem höfðu slasast en lifað af, þær hæstu líkast til um 16 milljónir íslenskar krónur í dag.

Fóturinn sem gaf sig í aftakaveðri á Norðursjónum fyrir 40 …
Fóturinn sem gaf sig í aftakaveðri á Norðursjónum fyrir 40 árum, 27. mars 1980. Ljósmynd/Olíuminjasafnið í Stavanger/Norsk oljemuseum

Hópur fólks, alls 162, ýmist aðstandendur eða áhöfn pallsins, reyndi að sækja Phillips fyrir bandarískum dómstólum en var vísað frá á þeim grundvelli að málið yrði aðeins rekið fyrir norskum dómstólum.

Alexander L. Kielland var að lokum sökkt niður á 700 metra dýpi í Nedstrandfjorden 18. nóvember 1983, þegar rannsókn slyssins var lokið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert