78.229 smit á níu dögum

Á meðan faraldurinn hefur náð hápunkti í Kína og virðist …
Á meðan faraldurinn hefur náð hápunkti í Kína og virðist vera í stöðugri rénun heldur hann áfram að vaxa hratt í Bandaríkjunum. Síðustu níu daga fjölgaði smitum í Bandaríkjunum úr 7.783 í 86.012, eða um 78.229. AFP

Fyrsta tilfelli kórónuveirunnar var staðfest í Bandaríkjunum 20. janúar. Á sama tíma höfðu um 200 tilfelli verið staðfest í Kína, þar sem faraldurinn hófst í lok síðasta árs, og þrjú dauðsföll höfðu verið tilkynnt. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skilgreindi kórónuveirufaraldurinn, eða sjúkdóminn sem hann veldur, COVID-19, sem heimsfaraldur 11. mars. Þá voru staðfest smit í Bandaríkjunum 1.281 en 80.793 í Kína. Munurinn er gríðarlegur.

Athygli vekur að aðeins 15 dögum síðar voru tilfellin orðin fleiri í Bandaríkjunum en Kína, eða 83.836. Samanburð á uppsöfnuðum smitum í Kína og Bandaríkjunum frá 1. febrúar má sjá hér að neðan: 

Á meðan faraldurinn hefur náð hápunkti í Kína og virðist vera í stöðugri rénun heldur hann áfram að vaxa hratt í Bandaríkjunum. Í heiminum öllum eru tilfellin orðin 547.034 en hvergi jafn mörg og í Bandaríkjunum. Alls hafa 25.000 manns látið lífið, flestir í Evrópu, en dauðsföllin í Bandaríkjunum eru orðin 1.301. 

Bandaríkjastjórn með Donald Trump í broddi fylkingar hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir aðgerðaleysi í baráttunni gegn útbreiðslu  veirunnar, en óhætt er að segja að Trump hafi gert lítið úr útbreiðslu veirunnar í upphafi. 

„Við höfum algjöra stjórn á þessu. Þetta er ein manneskja sem var að koma frá Kína og við höfum stjórn á þessu. Þetta verður allt í lagi,“ sagði Trump í viðtali við fréttamann CNBC á ráðstefnunni í Davos, daginn eftir að fyrsta smitið var staðfest í Bandaríkjunum. Um mánuði síðar var hann enn á sama máli.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar en viðbrögð Trump hafa fyrst og fremst verið í formi efnahagslegra aðgerða. 

Ýmislegt má segja um viðbrögð bandarískra stjórnvalda við útbreiðslu veirunnar, en ef eingöngu er horft á tölurnar er það ljóst að á níu dögum, frá 18.-27. mars, fjölgaði smitum úr 7.783 í 86.012, eða um 78.229. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert