„Erfitt að sjá einhvern á fertugsaldri deyja“

Löng röð hefur myndast fyrir utan nokkra spítala í borginni, …
Löng röð hefur myndast fyrir utan nokkra spítala í borginni, til að mynda Elmhurst-spítalann í Queens, þar sem fólk með einkenni bíður eftir að komast í sýnatöku. AFP

Heilbrigðisstarfsfólk á spítölum í New York vinnur undir miklu álagi þessa dagana og gerir hvað sem það getur til að útvega fleiri rými fyrir sjúklinga sem greinst hafa með kórónuveiruna. 

Staðfest smit kór­ónu­veirunn­ar í heim­in­um eru flest í Banda­ríkj­un­um en sam­kvæmt Johns Hopk­ins há­skól­an­um eru þau 85.991 tals­ins. Tæp­lega helm­ing­ur smit­anna hef­ur greinst í New York og af rúm­lega 1.300 dauðsföll­um má rekja 385 til rík­is­ins. 

Í fyrstu var það helst eldra fólk sem lagðist inn á spítala en nú er staðan breytt. „Núna er þetta fólk á fertugs-, fimmtugs- og sextugsaldri,“ segir einn heilbrigðisstarfsmaður í samtali við AFP-fréttastofuna, sem kýs að koma ekki fram undir nafni.

„Þau hlustuðu ekki og fóru ekki eftir fyrirmælum um að að halda sig heima og þvo sér um hendurnar,“ bætir hann við. „Það er erfitt að sjá einhvern á fertugsaldri deyja. Þau geta ekki fengið ástvini í heimsókn. Þau eru alein á stofunni í öndunarvél. Það er mjög niðurdrepandi.“

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, hefur skipað spítölum að taka á móti 50% fleiri sjúklingum og þeir spítalar sem geta eiga að tvöfalda þann fjölda sjúklinga sem þeir sinna venjulega. 

Frá röðinni við Elmhurst-spítalann í Queens.
Frá röðinni við Elmhurst-spítalann í Queens. AFP

Löng röð hefur myndast fyrir utan nokkra spítala, til að mynda Elmhurst-spítalann í Queens. Lögreglan sinnir eftirliti í röðinni en flestir eru með einkenni veirunnar og bíða eftir að sýni verði tekið. 

„Hann hefur verið að hósta og verið með hita síðustu daga,“ segir Juan Rodriguez, sem var með syni sínum í röðinni. 

„Við komum í gær en röðin var of löng svo við fórum aftur heim. Við höfum verið hér síðan klukkan sjö í morgun,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert