Hrikalegar tölur frá Spáni

Yfir 4.800 manns eru látnir úr kórónuveirunni á Spáni en alls létust 769 þar síðasta sólarhringinn. Aldrei áður hafa jafn margir látist þar á einum sólarhring úr veirunni samkvæmt upplýsingum frá ríkisstjórn landsins.

AFP

Heldur hefur hægt á fjölgun nýrra smita en alls hafa 64.059 greinst með kórónuveiruna á Spáni. Hefur þeim fjölgað um 8 þúsund, eða 14%, á milli daga en daginn áður var fjölgunin 18% á milli daga. Alls eru dauðsföllin 4.858 talsins.

Spænsk yfirvöld hafa ákveðið að fjölga sýnatökum og pantað milljónir sýnapinna alls staðar að úr heiminum.

Fleiri létust úr kórónuveirunni á Spáni síðasta sólarhringinn en á Ítalíu en alls voru tilkynnti 662 dauðsföll þar í landi. Það þýðir að 8.165 hafa látist úr veirunni á Ítalíu frá því í síðasta mánuði. Flest smit eru í Bandaríkjunum eða 85.991.

Gripið var til hertra reglna á Spáni 14. mars og gildir þar útgöngubann fyrir utan að fólk má sækja sér nauðsynjar og fara í lyfjaverslanir. Banninu verður ekki aflétt fyrr en 11. apríl í fyrsta lagi. 



 

Heilbrigðisstarfsmenn í Barcelona, Burgos, Valencia, Coruna og Palma de Mallorca …
Heilbrigðisstarfsmenn í Barcelona, Burgos, Valencia, Coruna og Palma de Mallorca þakka fyrir stuðninginn sem þeir hafa fengið frá samlöndum sínum á þessum erfiðu tímum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert