„Við áttum að eiga eðlilegt líf“

Rue de Rivoli í borg ljósanna, París, í gærkvöldi.
Rue de Rivoli í borg ljósanna, París, í gærkvöldi. AFP

„Þetta er óbærilegt,“ segir móðir 16 ára gamallar stúlku í París sem lést úr kórónuveirunni. „Við áttum að eiga eðlilegt líf,“ bætir hún við. Julie A lést í gær og er sú yngsta í Frakklandi sem deyr úr faraldrinum. Aldrei hafa jafn margir dáið á einum degi úr COVID-19 í Frakklandi og í gær.

Franski tenórinn Stephane Senechal syngur O sole mio á heimili …
Franski tenórinn Stephane Senechal syngur O sole mio á heimili sínu í gærkvöldi. AFP

Alls létust 365 úr veirunni í gær og eru dauðsföllin því orðin 1.696 talsins en aðeins er um að ræða þá sem hafa látist á sjúkrahúsum. Ekki þá sem hafa látist á heimilum sínum eða á dvalarheimilum, segir Jerome Salomon, landlæknir Frakklands.

Starfsfólk bráðamóttöku í París bregður á leik í smá pásu …
Starfsfólk bráðamóttöku í París bregður á leik í smá pásu í vinnunni. AFP

Fyrir viku síðan fékk Julie vægt kvef en á laugardag fór hún að finna fyrir andnauð að sögn móður hennar. Hún fór í rannsókn á sjúkrahúsi og í sýnatöku vegna COVID-19-veirunnar. Líðan hennar versnaði smátt og smátt og tilkynnt var um andlát hennar í gær. Yfirvöld í Frakklandi ítreka að afar sjaldgæft sé að ungt fólk verði alvarlega veikt af veirunni.

„Í byrjun var okkur sagt að veiran hefði ekki áhrif á ungt fólk. Við trúðum því líkt og allir aðrir,“ segir Sabine, móðir Julie í samtali við AFP-fréttastofuna. Dóttir hennar var ekki með  undirliggjandi sjúkdóma svo vitað sé.

Sýnataka við Signu.
Sýnataka við Signu. AFP

Útgöngubann hefur verið við lýði í Frakklandi frá 17. mars og segja yfirvöld að það taki tíma að hefta útbreiðslu veirunnar. Að sögn Salomon hefðu 29.155 einstaklingar greinst með COVID-19 í Frakklandi en segir að talan sé örugglega mun hærri þar sem aðeins þeir sem eru með einkenni eða eru í áhættuhópi komast að í sýnatöku. 3.375 eru á gjörgæsludeildum franskra sjúkrahúsa en alls eru tæplega 14 þúsund á sjúkrahúsum landsins vegna veirunnar. 

Métró í París.
Métró í París. AFP

Salomon segir erfitt að áætla hvenær faraldurinn nær hámarki í Frakklandi og að fólk sem er veikt núna hafi smitast áður en hertar aðgerðir tóku gildi. „Nú þegar samskiptin eru minni og fólk fer minna að heiman sýkist það síður. Þannig að við vonum að það veikist færri í næstu viku,“ segir hann. 

AFP

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, segir að hann hafi átt afar gott samtal við starfsbróður sinn í Bandaríkjunum, Donald Trump, um farsóttina. Hann segir að frönsk stjórnvöld, í samstarfi við fleiri ríki, séu að undirbúa nýjar viðamiklar aðgerðir á næstu dögum án þess að útskýra það frekar í hverju þær felist. 

Franska varðskipið Tonnerre flutti sjúklinga frá Korsíku til Marseille.
Franska varðskipið Tonnerre flutti sjúklinga frá Korsíku til Marseille. AFP

Hraðlestir hafa verið sérstaklega útbúnar til að flytja sjúklinga á milli héraða og voru 20 sjúklingar með kórónuveiruna fluttir frá austurhluta landsins til vesturstrandarinnar en í austurhluta landsins eru sjúkrahús yfirfull. Eins hefur herskip með fjölda sjúkrarúma verið komið fyrir í höfninni í Ajaccio á Korsíku til að létta álagið á sjúkrahúsinu þar. Stefnt er að því að flytja fleiri sjúklinga á milli landshluta í dag með flugi. mbl.is