Hátt í 200.000 þúsund Bandaríkjamenn geti látist

Anthony Fauci ræðir við blaðamenn í dag.
Anthony Fauci ræðir við blaðamenn í dag. AFP

Anthony Fauci, einn helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjanna, telur að allt að 200.000 Bandaríkjamenn gætu látist af völdum kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19.

Yfirvöld í einstaka ríkjum hafa lýst áhyggjum sínum af álagi á sjúkrahúsum og yfirvofandi skorti á nauðsynlegum búnaði og tækjum.

Fauci, sem er yfirmaður rannsókna á smitsjúkdómum hjá Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna, sagði í dag að mestu svartsýnisspár, sem gefa til kynna að yfir milljón manns gæti dáið af völdum veirunnar, væru ekki raunhæfar. Hann sagði líklegra að á bilinu 100 til 200 þúsund létust og að staðfest smit gætu orðið einhverjar milljónir.

Auðvelt að hafa rangt fyrir sér

Fauci bætti þó við að ómögulegt væri að gefa út marktækar spár þar sem hlutirnir breyttust hratt þegar kórónuveirufaraldurinn væri annars vegar. Segir hann að auðvelt sé að hafa rangt fyrir sér og gefa misvísandi upplýsingar.

Fjöldi staðfestra smita í Bandaríkjunum er nú tæplega 125.000 og tæplega 2.200 hafa látist. ástandið er verst í New York-borg, en þar hafa 672 látist. Borgarstjóri New York, Bill de Blasio, sagði á blaðamannafundi í dag að birgðir sjúkrahúsa borgarinnar af búnaði myndu ekki endast lengur en viku til viðbótar.

Ríkisstjóri New York, Andrew Cuomo, sagði í dag að fjöldi dauðsfalla í ríkinu væri nú orðinn 965, en þau voru 728 í gær og er því um að ræða flest dauðsföll á einum sólahring í ríkinu frá því að faraldurinn hófst.

mbl.is

Kórónuveiran

2. júní 2020 kl. 16:26
2
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir