Lifði af spænsku veikina en lést vegna veirunnar

Sjúkrabílar í Lundúnum.
Sjúkrabílar í Lundúnum. AFP

108 ára gömul bresk kona, sem lifði af spænsku veikina árið 1918, er látin af völdum kórónuveirunnar.

Konan, að nafni Hilda Churchill, lést á hjúkrunarheimili í Salford í gær aðeins fáeinum klukkustundum eftir að hafa greinst með COVID-19 sjúkdóminn. Átta dagar voru þá þar til hún hefði getað fagnað 109 ára afmæli sínu.

Churchill er elsta staðfesta fórnarlamb veirunnar í Bretlandi. Hún fæddist árið 1911 og því sjö árum fyrir faraldur spænsku veikinnar, sem sýkti 500 milljónir manna um allan heim og varð meðal annars systur hennar að bana.

Fjallað er um málið á vef Guardian, þar sem haft er eftir barnabarni Churchills að faraldurinn hafi minnt hana á spænsku veikina.

Flestir sýktust í fjölskyldunni

„Hún sagði hann mjög svipaðan spænsku veikinni en sagði að á hennar tíma hefðu engar flugvélar verið og samt hefði hún náð að breiðast út alls staðar,“ segir barnabarnið Anthony Churchill.

Flestir í fjölskyldu hennar sýktust af spænsku veikinni. Öll lifðu þau hana af nema ársgömul systir hennar. Anthony rifjar upp:

„Hún mundi eftir að hafa staðið við svefnherbergisgluggann og horft á þessa litlu kistu með litlu systur sinni, þar sem hún var flutt inn í vagn og keyrð í burtu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert