Ekki samstaða um sameiginleg skuldabréf

Leiðtogar Evrópusambandsríkja ræða málin á fjarfundi fyrir G20-fundinn í síðustu …
Leiðtogar Evrópusambandsríkja ræða málin á fjarfundi fyrir G20-fundinn í síðustu viku. AFP

Ekki er samstaða meðal Evrópusambandsríkja um útgáfu sameiginlegra ríkisskuldabréfa til að bregðast við kórónuveirufaraldrinum. Paolo Gentiloni efnahagsstjóri í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, segir ljóst að slík samstaða muni aldrei nást, en að málamiðlun við Þjóðverja sé nauðsynleg Evrópusambandinu.

„Ein þeirra leiða sem rædd hefur verið til að örva hagkerfi Evrópusambandsins nú á krepputímum er útgáfa ríkisskuldabréfa, en þó ekki að samræma skuldir. Það verður aldrei samþykkt,“ segir Gentiloni.

Ummæli Gentiloni féllu eftir að Ítalíu, Frakklandi, Spani og öðrum aðildarríkjum í suðurhluta álfunnar mistókst að sannfæra önnur aðildarríki í norðri um útgáfu slíkra bréfa. Hann óttast að ágreiningurinn geti haft afleiðingar fyrir evrópskt samstarf. „Það er ljóst að ef efnahagsvandræði verða til þess að auka á efnahagslega misskiptingu í álfunni frekar en að draga úr henni, þá er Evrópusamstarfið í hættu.“

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, er meðal þeirra sem hefur talað fyrir útgáfu sameiginlegra bréfa. „Enginn er að biðja Evrópu að taka yfir gamlar skuldir, heldur aðeins að grípa til aðgerða nú sem gagnast í baráttunni við þessa félags- og efnahagslegu flóðbylgju,“ sagði Conte í samtali við spænska blaðið El País og vísaði til kórónuveirufaraldursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert