Kvörtunarvefur lögreglu hrundi

AFP

Nýsjálendingar taka hlutverk sitt mjög alvarlega þegar kemur að því að tilkynna brot nágranna á reglum sem gilda um útgöngubann og var álagið á sérstakan vef lögreglunnar vegna þessa svo mikið að hann hrundi.

Í gildi er fjögurra vikna bann við því að vera á ferli úti við að óþörfu á Nýja-Sjálandi vegna COVID-19 og ef fólk þarf að fara að heiman er því skylt að halda tveggja metra fjarlægð sín á milli. 

AFP

Að sögn lögreglustjórans Mike Bush var vefurinn opnaður síðdegis í gær. Ekki leið á löngu þar til hann lagðist á hliðina vegna álags. Hann segir að 4.200 tilkynningar hafi borist þar sem fólk var að kvarta undan brotum á reglunum. Bush segir það til marks um hversu mikið Nýsjálendingum sé í mun að allir taki þátt í þessu verkefni - að stöðva útbreiðslu veirunnar. 

Meðal þess sem var kvartað yfir var 60 manna partý á farfuglaheimili í Queenstown og ferðamenn sem halda áfram að ferðast um í húsbílum.

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, er ánægð með að fólk láti vita af brotum og hvetur almenning til þess að tilkynna verðhækkanir hjá matvöruverslunum. 

„Nú er ekki rétti tíminn til þess að sveigja reglurnar. Þetta er rétti tíminn til að halda sig heima og bjarga mannslífum,“ segir hún. 

Alls hafa 552 smit verið greind á Nýja-Sjálandi og eitt dauðsfall. Alls eru íbúar landsins 5 milljónir talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert