Trump hyggst senda læknisbúnað til Ítalíu

Trump gaf ekki nákvæmar upplýsingar um hvers konar búnað væri …
Trump gaf ekki nákvæmar upplýsingar um hvers konar búnað væri að ræða eða hvenær Evrópulöndin ættu von á sendingum. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt að hann hyggist senda lækningatæki til Ítalíu, og til Spánar og Frakklands í kjölfarið, til þess að aðstoða þjóðirnar við að vinna bug á útbreiðslu kórónuveirunnar.

Þetta tilkynnti forsetinn á daglegum blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag.

Trump gaf ekki nákvæmar upplýsingar um hvers konar búnað væri um að ræða eða hvenær Evrópulöndin ættu von á sendingum, en hann sagði að fyrst um sinn yrðu lækningatæki að andvirði 100 milljóna bandaríkjadala send til Ítalíu.

Sagði hann Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, mjög ánægðan.

Trump hefur verið harðlega gangrýndur fyrir seinagang í viðbrögðum við kórónuveirufaraldrinum sem hefur náð mikilli útbreiðslu í Bandaríkjunum, ekki síst í New York, þar sem ríkisstjórinn segir skort á lækningatækjum fyrirséðan.

mbl.is