Yfir 25 þúsund látnir í Evrópu

Spænsk yfirvöld greindu frá því áðan að 812 hafi látist úr veirunni þar undanfarinn sólarhring og eru því 7.340 látnir þar. Þetta er í fyrsta skipti í nokkra daga sem tala látinna á einum sólarhring lækkar en í gær var tilkynnt um 838 dauðsföll þar. Alls eru staðfest smit 85.195 talsins sem er aukning um 8% á milli daga. 

Heilbrigðisyfirvöld á Spáni segjast vonast til þess að hátindinum sé náð þar sem hægt hefur á fjölgun smita og dauðsfalla. Afar harðar reglur eru í gildi á Spáni og hafa gilt frá því um miðjan mars. Fólki hefur verið bannað að fara að heiman nema til að sækja vinnu, kaupa mat og lyf eða til að sinna veikum ættingjum. 

Á laugardaginn kynnti forsætisráðherra Spánar, Pedro Sanchez, enn harðari reglur þannig að næstu tvær vikur er fólki sem ekki þarf nauðsynlega að mæta til starfa gert að halda sig heima. 

Dauðsföllin í heiminum vegna COVID-19 eru orðin 34.610 talsins. Meira en tveir þriðju hlutar þeirra sem hafa látist eru búsettir í Evrópu. Alls eru greind smit orðin 727.080  talsins í 183 löndum. Af þeim hafa að minnsta kosti 142.300 náð fullum bata.

Á Ítalíu hafa 10.779 látist en greind smit eru 97.689 og af þeim hafa 13.030 náð bata. Í Íran hafa  2.757 látist og 41.495 greinst með veiruna. Í Frakklandi eru 2.606 látnir og 40.174 smit greind. Í Bandaríkjunum eru staðfest smit 143.055 og 2.514 hafa látist.
mbl.is