Finnar framlengja neyðaraðgerðum

Finnar hafa hert eftirlit á landamærum sínum í vestri og …
Finnar hafa hert eftirlit á landamærum sínum í vestri og austri. AFP

Neyðarlög verða áfram í gildi í Finnlandi og gilda þau til 13. maí hið minnsta, segir forsætisráðherra Finnlands, Sanna Marin. Hún tilkynnti um aðgerðir stjórnvalda í gærkvöldi.

Að hennar sögn hafa þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til skilað árangri en nauðsynlegt sé að framlengja þær fram í maí til að koma í veg fyrir fjölgun kórónuveirusmita. Þetta kemur fram í frétt finnska ríkisútvarpsins.

„Ég vil þakka öllum þeim Finnum og fyrirtækjum sem hafa farið að reglum og þar af leiðandi varið heilsu þeirra sem þeim standa næst,“ segir Marin en að hennar sögn er ætlunin að gera gangskör í að fjölga sýnatökum í þeirri von að geta þannig komið í veg fyrir fjölgun smita. 

AFP

Skólar verða því að mestu lokaðir áfram fyrir utan að nemendur í 1. til 3. bekk grunnskóla geta komið í skólann. Aðrir njóta fjarkennslu þangað til um miðjan maí. Ríkisstjórnin mælir aftur á móti ekki með því að foreldrar sendi yngstu börnin í skólann og að þeir sem geti eigi að halda börnum sínum heima.

Farþegaferjusiglingar til Svíþjóðar liggja niðri og eftirlit verður hert á landamærum í austri og vestri. Aftur á móti verða vöruflutningar með hefðbundnu sniði til og frá finnskum höfnum.

Stefnt er að því að loka öllum veitingastöðum og börum og að lokunin gildi út maí. Þetta verður rætt á finnska þinginu í dag og greidd atkvæði um hvort framlengja eigi gildistíma neyðarlaganna sem og að loka veitingastöðum og börum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert