Telja að um 59 þúsund mannslífum hafi verið bjargað

Aðgerðir í mörgum Evrópulöndum eru taldar hafa bjargað tugum þúsunda …
Aðgerðir í mörgum Evrópulöndum eru taldar hafa bjargað tugum þúsunda mannslífa. AFP

Vísindamenn við Imperial College í London telja að allt upp í 59 þúsund mannslífum hafi nú þegar verið bjargað með hörðum aðgerðum í baráttunni við útbreiðslu kórónuveirunnar, eins og útgöngu- og samgöngubönnum í ellefu Evrópulöndum. AFP-fréttastofan greinir frá.

Vísindamennirnir telja að í öllum löndunum sem þeir skoðuðu hafi dauðsföllum verið haldið verulega í skefjum með aðgerðunum. Þeir benda þó á að ekki sé hægt að fullyrða þetta með algjörri vissu, en niðurstöður þeirra og spálíkan sé ástæða til bjartsýni.

AFP

Um þrír milljarðar jarðarbúa sæta einhvers konar útgöngubanni í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar sem dregið hefur tæplega 40 þúsund manns til dauða frá því hún fyrst kom upp í Kína í lok síðasta árs. Rannsóknir vísindamannanna við Imperial College náðu þó bara til Evrópu.

38 þúsund mannslífum bjargað bara á Ítalíu 

Rannsóknirnar byggja meðal annars á tölum frá Ítalíu og Spáni, sem verst hafa orðið úti vegna veirunnar í Evrópu. Og áætluðu þeir hver fjöldi dauðsfalla hefði getað orðið ef ekkert hefði verið að gert. Skólum hefði ekki verið lokað, viðburðum aflýst og útgöngubann sett á. Þeir telja jafnframt að aðgerðirnar eigi eftir að bjarga fjölda mannslífa til viðbótar verði þeim haldið áfram þar til dregur verulega úr útbreiðslu veirunnar.

AFP

Í niðurstöðum vísindamannanna kemur fram að þrátt fyrir alvarlegt ástand á Ítalíu og mikið álag á heilbrigðiskerfið, sem varla hefur ráðið við faraldurinn, þá hafi aðgerðir þar í landi afstýrt algjöru hruni kerfisins. En áætlað er að bara á Ítalíu hafi um 38 þúsund mannslífum nú þegar verið bjargað. Á Spáni er talið að um 16 þúsund lífum hafi verið bjargað með aðgerðum, um 2.500 mannslífum í Frakklandi, 560 í Belgíu, 370 í Bretlandi, 340 í Sviss, 140 í Austurríki, 82 í Svíþjóð, 69 í Danmörku og 10 mannslífum í Noregi.

Margfalt fleiri smit hefðu komið upp

Þá er talið að allt að 5,9 milljónir Ítala hefðu nú þegar smitast ef ekki hefði verið gripið til þessara hörðu aðgerða þar í landi fyrir þremur vikum. En það eru um 10 prósent þjóðarinnar. Í dag hafa um 102 þúsund smit verið staðfest á Ítalíu en þau gætu þó verið fleiri þar sem sýni hafa aðallega verið tekin úr veikustu einstaklingunum. Á Spáni er talið að um 7 milljónir hefðu smitast, eða um 15 prósent þjóðarinnar. Það sé hins vegar of snemmt að segja til um það hvort ríki þar sem veiran hefur ekki náð jafn mikilli útbreiðslu sjái jafn mikinn árangur af aðgerðum sínum.

Faraldsfræðingar við Imperial College í London eru í hópi þeirra sem ráðleggja bresku ríkisstjórninni í viðbrögðum vegna kórónuveirunnar.

AFP
mbl.is