Draugabær við rætur Everest

Bærinn Khumjung í Himalaja iðar venjulega af lífi á þessum árstíma enda vorið besti tíminn til að klífa hæsta fjall í heimi, Everest. En kórónuveiran hefur valdið því að ekki er heimilt að klífa tindinn háa og þar með lífsviðurværi sjerpa ógnað. 

Ekkert smit hefur enn greinst í fjallabænum en þar búa margir þeirra sjerpa sem starfa við fjallaleiðsögn í Himalaja-fjallgarðinum. Landamærum hefur aftur á móti verið lokað, bæði í Nepal og Kína, og engin flugumferð er lengur á þessar slóðir. 

Phurba Nyamgal, sjerpi sem hefur klifið Everest og aðra tinda í fjallgarðinum, er áhyggjufullur yfir framhaldinu líkt og hundruð annarra fjallaleiðsögumanna á svæðinu.

„Við förum ekki á þessi fjöll vegna þess að okkur langi til þess heldur er þetta eina von okkar um vinnu,“ segir hann við fréttamann AFP.

Nyamgal býr í  Khumjung ásamt eiginkonu og sex ára syni og er alinn upp á þessum slóðum þar sem faðir hans starfaði sem jakuxahirðir. Hann hefur farið 8 sinnum á topp Everest og aðstoðað tugi fjallgöngumanna við að sigra tindinn fræga. „Ég held að við séum allir að glíma við sama vandamál hér,“ segir Nyamgal sem er 31 árs. 

Nyamgal væri í hefðbundnu árferði í grunnbúðum Everest á þessum árstíma að setja upp tjaldbúðir og undir búa klifurleiðir en nú hanga línur og festingar enn á húsveggjum í Khumjung. Gistiheimili og tehús sem venjulega eru yfirfull af fjallgöngumönnum á þessum tíma standa auð. 

Yfirvöld í Nepal bönnuðu alla fjallgönguleiðangra í landinu 12. mars og ekki er vitað hversu lengi bannið varir. Þetta þýðir tekjutap upp á 568 milljónir króna vegna útgáfu leyfa til að klífa fjöll í Nepal. Leyfi til að klífa Everest kostar 1,6 milljónir króna á mann. 

Sjerpar eru oft eina fyrirvinna fjölskyldunnar og tekjur þeirra frá byrjun apríl til loka maí eru oft einu tekjur fjölskyldunnar allt árið. Laun þeirra eru yfirleitt á bilinu 700-1400 þúsund krónur fyrir tímabilið.

Grunnbúðirnar eru nú auðar en í fyrra var sett met í fjölda þeirra sem náðu á tind Everest, alls 885 manns. Þar af fóru 644 Nepal-megin. 

„Þar sem tímabilinu var aflýst fær enginn okkar vinnu. Allt frá flugi, verslunarrekstri og burðarmönnum, það er enga vinnu að fá. Allir eru á heimleið,“ segir Pemba Galzen, sem hefur farið á tind Everest 14 sinnum með fjallgöngumenn.

Damian Benegas, sem hefur verið fararstjóri hópa í tvo áratugi, segir að þeir sem verði verst úti séu starfsmenn eldhúsa og burðarmenn. „Þetta fólk á engan sparnað né heldur ráðningarsamninga við skipuleggjendur leiðangra sem standa þarf við,“ segir Benegas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert