Fastir um borð í skipi þar sem veiran breiðist út

Að minnsta kosti 80 sjóliðar um borð í skipinu eru …
Að minnsta kosti 80 sjóliðar um borð í skipinu eru smitaðir af kórónuveirunni. AFP

Skipstjóri flugmóðuskips bandaríska flotans, með 5.000 manns innanborðs, þar á meðal fjölda smitaðra af kórónuveirunni, hefur óskað eftir aðstoð til að bjarga lífi sjóliða sinna.

Skipið, Theodore Roosevelt, var á siglingu á Kyrrahafinu þegar fyrsta tilfellið af kórónuveiru greindist þar um borð í síðustu viku. Það er hefur nú lagst að bryggju við Guam, sem er á yfirráðasvæði Bandaríkjanna í vestur Kyrrahafi. The Guardian greinir frá.

Brett Crozier, skipstjóri flugmóðuskipsins, skrifaði fjögurra blaðsíðna bréf til bandarískra yfirvalda þar sem hann lýsti grafalvarlegri stöðu um borð. Hann sagði til að mynda skorta aðstöðu um borð til að koma veikum í einangrun og öðrum útsettum fyrir smiti í sóttkví. Það væri því ómögulegt að halda veirunni í skefjum um borð. Talið er að nú þegar séu að minnsta kosti 80 einstaklingar smitaðir, en herinn hefur ekki viljað staðfesta það. Sú tala mun þó að öllum líkindum hækka mjög hratt.

Í bréfinu kallar hann eftir einbeittum aðgerðum og að yfir 4.000 sjóliðar verði fluttir frá borði og komið í einangrun. Ásamt annarri áhöfn og flugmönnum sem eru um borð í skipinu.

„Við erum ekki í stríði. Sjóliðar þurfa ekki að deyja. Ef ekkert er að gert strax erum við að bregðast einum okkar dýrmætasta mannauði – sjóliðunum okkar,“ skrifaði Crozier.

Í bréfinu kemur ekki fram hvert á að fara með sjóliðana en ljóst sé að það verði áskorun að koma öllum þessum fjölda fyrir á öruggum stað. Þar sem þeir geta verið í einangrun í 14 daga.

Thomas Modly, yfirmaður í bandaríska flotanum, segir að unnið hafi verið að því í nokkra daga að koma sjóliðunum frá borði og til Guam. Þar eru hins vegar ekki til nægilega mörg sjúkrarúm. Í umræðunni hefur hins verið að nýta hótel og jafnvel koma upp tjaldbúðum fyrir sjóliðana. 58 tilfelli af kórónuveiru hafa verið staðfest á Guam og tveir hafa látist.

Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði hins vegar í gær að það væri ekki tímabært að flytja sjóliðana frá borði. Hann hafði þó ekki lesið bréfið frá skipstjóranum í smáatriðum.

mbl.is