Tala látinna hefur tvöfaldast á 3 dögum

Yfir fjögur þúsund manns eru látnir af völdum kórónuveirunnar í Bandaríkjunum, samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum. Tala látinna hefur meira en tvöfaldast á þremur dögum.

Alls eru 4.076 látnir en voru 2.010 talsins á laugardagskvöldið. Yfir 40% þeirra sem hafa látist eru búsettir í New York ríki samkvæmt tölum Johns Hopkins.

Í gær fór fjöldi látinna af völdum COVID-19 í Bandaríkjunum yfir fjölda látinna í Kína, þar sem farsóttin greindist fyrst í desember.

Alls eru staðfest smit orðin 189.510 talsins í Bandaríkjunum og eru hvergi jafn mörg og þar þrátt fyrir að fleiri hafi látist bæði á Ítalíu og Spáni.

Eftir að hafa reynt í byrjun að tala niður ógnina sem stafar af veirunni hefur tóninn breyst hjá forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, sem varaði við afar erfiðum tveimur vikum framundan í landinu þegar hann ræddi við fjölmiðla í gær. 

mbl.is

Bloggað um fréttina