Úr ráðstefnuhöll í spítala á fimm dögum

ExCel ráðstefnuhöllinni í Lundúnum hefur verið breytt í spítala, aðeins …
ExCel ráðstefnuhöllinni í Lundúnum hefur verið breytt í spítala, aðeins á fimm dögum. AFP

Bretar hafa breytt ráðstefnuhöllinni ExCel í Lundúnum í spítala til að bregðast við útbreiðslu kórónuveirunnar. Verkið tók aðeins fimm daga. 

Spítalinn hefur fengið nafnið Nightingale-spítalinn. Um 500 rúm eru þegar klár en þegar búið verður að innrétta spítalann að fullu verður pláss fyrir 4.000 sjúklinga hverju sinni. Búist er við að spítalinn verði tekinn í notkun í lok vikunnar. 

Til stendur að reisa tvo bráðabirgðaspítala til viðbótar, í Birmingham og Manchester. 

Dauðsföllum af völdum kórónuveirunnar hefur fjölgað hratt í Bretlandi síðustu daga. Í gær var til­kynnt 381 nýtt dauðsfall, sem er það mesta á ein­um degi til þessa, og tvö­falt fleiri dauðsföll en greint var frá í fyrrdag. 

Alls hafa 1.793 látið lífið og 25.499 greinst með veiruna í Bretlandi. 179 hafa náð fullum bata.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert