Vara við hættu á matarskorti

Yfirmenn þriggja alþjóðastofnana vara við hættunni á matarskorti ef yfirvöldum tekst ekki að takast á við kórónuveiruna og afleiðingar hennar á réttan hátt.

Ríkisstjórnir víða um heim hafa fyrirskipað þegnum sínum að halda sig heima sem hefur haft þær afleiðingar að mjög hefur hægt á heimsviðskiptum sem og matarframleiðslu. Á sama tíma hefur fólk hamstrað vörur og þannig ýtt undir alvarlega stöðu í ýmsum ríkjum þar sem hillur matvöruverslana eru tómar. 

„Óvissa um framboð á matvælum getur leitt til útflutningshamlana og þannig skapað skort á alþjóðamörkuðum,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu Qu Dongyu, framkvæmdastjóra Mat­væla­stofn­unar Sam­einuðu þjóðanna (FAO), Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóra Alþjóðaheil­brigðis­stofn­un­ar­inn­ar (WHO) og Roberto Azevedo, framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskipta­stofn­un­ar­inn­ar (WTO).

Allt verði að gera til þess að tryggja frjáls viðskipti eins og mögulegt er á þessum tímum COVID-19 segja þeir ennfremur. 

„Þegar gripið er til aðgerða til að verja heilsu og velferð borgara verða ríkin að tryggja það að aðgerðir tengdar viðskiptum hafi ekki truflandi áhrif á fæðuframleiðslukeðjuna.“

Þeir segja að verja þurfi starfsmenn í matvælaframleiðslu, vinnslu og dreifingu. Bæði heilsu þeirra vegna og annarra. „Á tímum sem þessum er alþjóðlegt samstarf mikilvægara en nokkru sinni áður.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert