Breskt flugfélag segir upp 30 þúsund starfsmönnum

Flugfélagið British Airways segir upp nánast öllu starfsfólki sínu í …
Flugfélagið British Airways segir upp nánast öllu starfsfólki sínu í að minnsta kosti tvo mánuði. AFP

Breska flugfélagið British Airways hyggst segja upp um 30 þúsund starfsmönnum sínum tímabundið. Félagið hefur fundað stíft með stjórnvöldum sem og verkalýðsfélögum vegna erfiðrar stöðu vegna kórónuveirufaraldursins. 

Nánast allur floti flugfélagsins hefur verið kyrrsettur í bili, líkt og nánast alls staðar í heiminum um þessar mundir.  

Alex Cruz, forstjóri flugfélagsins, greindi starfsfólki sínu frá því að þeim yrði sagt upp störfum að minnsta kosti næstu tvo mánuðina. Breska ríkið hyggst greiða starfsfólkinu 80% af laununum. 

„Við verðum að bregðast við og reyna eftir fremsta megni að sjá til þess að flugfélagið komist út úr þessum hremmingum í besta mögulega ástandi og unnt er,“ segir Cruz.

Formaður stéttarfélags starfsmannanna segir að niðurstaðan sé ásættanleg miðað við stöðuna í heiminum í dag.  

mbl.is