Dæmdur til árs fangelsisvistar fyrir sölu á andlitsgrímum

Dómurinn er sá fyrsti sem fellur í París í Frakklandi …
Dómurinn er sá fyrsti sem fellur í París í Frakklandi sem snýr að hlífðarbúnaði vegna kórónuveirunnar. AFP

Karlmaður var dæmdur í árs fangelsi og gert að greiða 10 þúsund evrur í sekt fyrir að selja andlitsgrímur ólöglega í París í Frakklandi. Frönsk yfirvöld hafa bannað alla sölu á andlitsgrímum á almennum markaði. Allar þær andlitsgrímur sem til eru í landinu skuli ætlaðar heilbrigðisstarfsfólki vegna útbreiðslu kórónuveirunnar en fyrirséður er mögulegur skortur á þeim.   

Þetta er fyrsti dómurinn sem fellur í borginni sem snýr að hlífðarbúnaði. Á síðustu vikum hafa nokkrir verið handteknir og ákærðir eftir að birgðir af andlitsgrímum fundust í vörslu þeirra. 

Á heimili mannsins í nítjánda hverfi í París fundust yfir 20 þúsund andlitsgrímur.  

Frönsk stjórnvöld hafa allar klær úti við að afla fleiri andlitsgríma og hlífðarbúnaðar fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Þau hafa pantað um 1,5 milljarða andlitsgríma, aðallega frá Kína. Frá þessu greindi Olivier Veran, heilbrigðisráðherra Frakka. Talsverð bið er eftir að grímurnar komi til landsins því bæði er mikil spurn eftir þeim á heimsvísu og einnig lagðist framleiðsla þeirra af um tíma eftir að kórónuveiran kom upp í Kína. 

Áætlað er að af þessum fjölda þurfi heilbrigðisstarfsmenn um 40 milljónir gríma á hverri viku. Þetta er um þrefalt meira en venjulega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert