Skipstjórinn sagður hafa sýnt dómgreindarskort

Crozier hefur verið fjarlægður frá borði.
Crozier hefur verið fjarlægður frá borði. AFP

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur látið fjarlægja skipstjóra flugmóðuskipsins Theodore Roosevelt frá borði á þeim forsendum að hann hafi klúðrað upplýsingagjöf og samskiptum við yfirmenn varðandi útbreiðslu kórónuveirunnar um borð í skipinu. Fyrsta smitið kom upp í um borð í síðustu viku þegar skipið var á siglingu á Kyrrahafinu, en það lagðist síðan að bryggju við Guam. Um 5.000 sjóliðar eru um borð. AFP-fréttastofan greinir frá.

Skipstjórinn, Brett Crozier, skrifaði í vikunni tilfinningaþrungið fjögurra blaðsíðna bréf þar sem hann lýsti aðstæðum um borð og hvernig sjóliðarnir veiktust einn af öðrum. Þeir hefðu enga aðstöðu til að setja menn í einangrun eða sóttkví. Taldi hann lífi sjóliðanna ógnað og sagði mikilvægt að hefja einbeittar aðgerðir strax til að koma þeim frá borði.

Thomas Moodly, yfirmaður í bandaríska flotanum, segir það hafa verið rangt hjá Crozier að dreifa bréfinu og láta leka því til fjölmiðla áður en yfirmenn hans höfðu fengið tækifæri til að lesa það.

Moodly sagði 114 staðfest tilfelli af kórónuveirunni um borð í skipinu en ekkert þeirra væri alvarlegt. Crozier hafi stórlega ýkt þegar hann gaf í skyn að sjóliðarnir myndu deyja ef ekkert yrði að gert. „Crozier sýndi dómgreindarskort í miðju krísuástandi með því að dreifa bréfinu. Innihald þess gaf ekki rétta mynd af því sem var að gerast um borð í skipinu og skapaði óþarfa hræðsluástand.“

Moodly segist þó telja að skipstjórinn hafi haldið að hann væri að gera það besta fyrir sjóliðina um borð, en því miður hafi þetta haft þveröfug áhrif. Hann hafi meðal annars hrætt fjölskyldur þeirra að óþörfu.

mbl.is

Bloggað um fréttina