„Á þetta að vera aprílgabb?“

Norska ríkisstjórnin hefur pantað þúsund öndunarvélar frá tveimur norskum framleiðendum. …
Norska ríkisstjórnin hefur pantað þúsund öndunarvélar frá tveimur norskum framleiðendum. Þær eru hins vegar umdeildar í meira lagi og hafa talsmenn norskra og danskra stéttarfélaga heilbrigðisstarfsfólks brugðist ókvæða við valinu sem annar formaðurinn kallar aprílgabb. Ljósmynd/Wikipedia.org

Félag norskra hjúkrunarfræðinga telur eitt þúsund öndunarvélar, sem norska ríkið pantaði í mars af fyrirtækjunum Lærdal Medical og Servi í Noregi, hvergi nærri standa undir þeim kröfum sem heilbrigðisástand alvarlega veikra kórónuveirusjúklinga gerir.

„Á þetta að vera aprílgabb?“ spyr Lill Sverresdatter Larsen, formaður norska hjúkrunarfræðingafélagsins NSF, í samtali við norska Dagbladet. Segir Larsen öndunarvélarnar nýpöntuðu í besta falli skapa falska öryggiskennd. Þær mæli hvorki þrýsting inn- né útöndunar auk þess sem sá hjúkrunarfræðingur finnist varla í Noregi sem kunni á vélarnar.

„Þú lætur ekki hvern sem er annast sjúkling í öndunarvél, hér er enginn með þjálfun á þessar vélar,“ segir hún enn fremur og bætir því við að vafamál sé hvort vélarnar nýtist sjúklingum sem sýkst hafi af kórónuveirunni. „Ég trúi hvorki augum mínum né eyrum þegar ég sé Ernu Solberg [forsætisráðherra Noregs] kynna þetta sem „góðu frétt“ dagsins,“ segir Larsen og er töluvert niðri fyrir.

Vilja ekki sjá þetta í Danmörku

Joachim Torp Hoffmann-Petersen, formaður félags svæfingarhjúkrunarfræðinga í Danmörku, Den danske anestesiforeningen, tekur í sama streng og formaður NSF í Noregi. „Við viljum ekki sjá þetta í Danmörku. Þessi tæki eru ónothæf við meðhöndlun kórónuveirusjúklinga,“ skrifar hann á Twitter. „Þeir stríða við alvarlega andnauð og þarfnast öndunaraðstoðar sem veldur sem allra minnstum skaða á lungnavef þeirra,“ segir Hoffmann-Petersen við Dagbladet.

Hann segir nýju vélarnar skorta fjölda eiginleika sem lífsnauðsynlegar séu fólki í andnauð vegna kórónuveiru og nefnir meðal annars, eins og Larsen í Noregi, að vélarnar mæli ekki öndunarþrýsting. Segir Hoffmann-Petersen það „hneyksli að Lærdal merki þær sínu nafni“.

Játar hann þó að framleiðandinn Lærdal Medical sé þekktur að gæðum á vettvangi lækningabúnaðar. „Hugsanlega er hægt að nota þetta á dýraspítala eða þegar fólk með heilbrigð lungu á í hlut. Þetta verkar ekki neitt fyrir fólk með kórónuveiru,“ segir Hoffmann-Petersen.

Aldrei staðið frammi fyrir öðru eins

Tore Lærdal, framkvæmdastjóri Lærdal Medical, segir að gagnrýnin sé fullkomlega ómakleg miðað við ástandið í Noregi þar sem 50 manns höfðu látist af völdum veirunnar í gær.

„Við höfum aldrei staðið frammi fyrir öðru eins. Málið snýst um að virkja lækningatæki gegn hreinu stórslysi. Gjá er milli þess sem við höfum af búnaði og spurnar eftir honum,“ segir Lærdal. „Grundvöllur þessarar gagnrýni er valkostur við hefðbundnar öndunarvélar. Þannig er það bara ekki. Dekksta spá ríkisstjórnarinnar byggir á holskeflu COVID-19-tilfella á stuttum tíma, margfalt fleiri sjúklingar munu þurfa aðstoð öndunarvélar en birgðir slíkra tækja leyfa,“ segir Lærdal.

„Við leggjumst öll á árarnar í þessari baráttu og ég tel þessa gagnrýni afskaplega ósanngjarna,“ segir hann að lokum.

Larsen segir svör framkvæmdastjórans skorta alla sannfæringu. „Þessar vélar gætu bjargað mænuveikisjúklingum hugsanlega. Þetta gæti verið frá 1950. Ástæðan fyrir því að þeir þurftu öndunarvél var þó gjörólík því ástandi sem krefst öndunarvélar fyrir COVID-19-sjúklinga. Lungu mænuveikra voru oftast heilbrigð, öndunarerfiðleikar þeirra voru af taugafræðilegum orsökum,“ segir Larsen.

Fjölþættur vandi

Öndunarvélarnar umdeildu eru þó ekki að öllu leyti runnar undan rifjum Lærdal Medical. Að baki hönnuninni stendur Eivind Gransæther, verkfræðingur olíutæknifyrirtækisins Mirmorax. Dagbladet spyr hann hvort hann taki gagnrýni stéttarfélaganna norsku og dönsku til sín.

„Nei, það geri ég ekki. Ég er ekki læknir, það eru læknar sem eiga að ákveða hvað er tekið í notkun. Þeir eiga ekki um margt að velja, þetta eða ekkert,“ segir Gransæther

„Það er hreinn barnaskapur að trúa því að öndunarvélar leysi þetta vandamál. Þetta er fjölþættur vandi sem krefst fjölda heilbrigðisstarfsmanna. Þetta er bara hluti af púslinu, en byrjirðu ekki að púsla verðurðu aldrei búinn að því,“ segir verkfræðingurinn.

Bent Høie, heilbrigðisráðherra Noregs, segir nýju öndunarvélarnar viðbót við þær sem fyrir eru, en norsk sjúkrahús hafa aðeins yfir 682 öndunarvélum að ráða fyrir rúmlega fimm milljóna þjóð.

„Nýju vélarnar eru neyðarráðstöfun sem gerir heilbrigðisstarfsfólki kleift að nota þær hefðbundnu á þá sjúklinga sem þurfa meira á þeim að halda,“ segir Høie.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Kórónuveiran

29. maí 2020 kl. 13:30
1
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir