Einfaldlega rangt

AFP

Um fjórðungur allra þeirra sem eru með staðfest smit kórónuveirunnar í heiminum er búsettur í Bandaríkjunum. Yfir 1.100 þeirra létust síðasta sólarhringinn og eru þetta fleiri en hafa látist annars staðar í heiminum á svo stuttum tíma. Veiran herjar á unga sem aldna og rangt að halda öðru fram segir sérfræðingu WHO. 

Um sex þúsund hafa látist í farsóttinni í Bandaríkjunum, samkvæmt talningu John Hopkins-háskólans. Sérfræðingar forseta Bandaríkjanna segja að á milli 100 og 240 þúsund Bandaríkjamenn eigi á hættu að deyja vegna veirunnar.

AFP

Almannavarnir í Bandaríkjunum hafa óskað eftir því við Bandaríkjaher að fá 100 þúsund líkpoka afhenta. Um 85% Bandaríkjamanna eru í einhvers konar útgöngubanni. 

Líkt og greint var frá á mbl.is í gærkvöldi hefur borgarstjórinn í New York hvatt íbúa til þess að hylja andlit sitt fari þeir út úr húsi og varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, segir að mælt verði með notkun andlitsgríma á almannarými í öllu landinu á næstu dögum. 

Yfir milljón jarðarbúa hefur greinst með kórónuveiruna og yfir 50 þúsund þeirra eru látnir. Þrátt fyrir að rúmlega helmingur jarðarbúa búi við einhvers konar útgöngubann virðist veiran ekki láta neitt stöðva sig á hraðferð sinni um heiminn. 

AFP

Stefnir í 13-16% atvinnuleysi

Efnahagslegur kostnaður af völdum farsóttarinnar eykst dag frá degi og er talið að um 10 milljónir Bandaríkjamanna hafi misst vinnuna á síðustu tveimur vikum. Hagfræðingar vara við því að þetta sé aðeins upphafið og eigi eftir að versna enn frekar.

„Það eru engin orð til að lýsa þessu,“ segir Ian Shepherdson, sérfræðingur hjá Pantheon Macroeconomics. Hann segir að spár geri ráð fyrir því að 16-20 milljónir Bandaríkjamanna muni missa vinnuna í mars og apríl og það þýðir að atvinnuleysi fer í 13-16% á einum mánuði. 

Alþjóðlega mats­fyr­ir­tækið Fitch spáir því að samdrátturinn í Bandaríkjunum og evrusvæðinu verði 30% í ársfjórðungnum og Þróunarbanki Asíu telur að kostnaðurinn sem heimshagkerfið taki á sig vegna veirunnar nemi um 4,1 billjón (milljón milljónir) bandaríkjadala.

Á Spáni er unnið að því að dreifa mat til …
Á Spáni er unnið að því að dreifa mat til heimilislausra. AFP

Á sama tíma og Bandaríkjamenn standa frammi fyrir versnandi hamförum í heilbrigðiskerfinu virðist farsóttin vera að nálgast hámarkið í Evrópu en þar hefur hún geisað vikum saman. Þrátt fyrir að bæði á Spáni og Bretlandi hafi fleiri dáið á einum sólarhring en áður (tölur frá því í gær), en 950 létust á Spáni og 569 í Bretlandi, hefur dregið úr fjölgun nýrra greindra smita. Um helmingur þeirra sem hafa látist úr veirunni var búsettur á Ítalíu og Spáni en sérfræðingar segja að nýjum smitum fari þar hlutfallslega fækkandi.

Unnið að uppsetningu bráðabirgðasjúkrahúss í Manor Park í austurhluta London.
Unnið að uppsetningu bráðabirgðasjúkrahúss í Manor Park í austurhluta London. AFP

Þrátt fyrir að flestir þeirra sem eru látnir séu eldri borgarar og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma hafa unglingar og jafnvel smábörn látist af völdum veirunnar. Þetta þykir sýna svart á hvítu hættuna sem allir aldurshópar standa frammi fyrir. „Sú hugmynd að COVID-19 herji aðeins á eldra fólk er einfaldlega röng,“ segir Hans Kluge, svæðisstjóri WHO í Evrópu. Hann segir að bæði börn og ungmenni hafi þurft að leggjast á gjörgæslu vegna þess hversu þungt veiran leggst á þau. 

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, boðar mikla aukningu í skimun og fljótlega verður þeim fjölgað í 100 þúsund á dag. Ríkisstjórn Bretlands hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir hversu lítið er gert í að skima heilbrigðisstarfsmenn þar í landi. 

Bretar eru einnig að reisa bráðabirgðasjúkrahús en ákveðið hefur verið að breyta tveimur byggingum í sjúkrahús og þar verði rúm fyrir 1.500 sjúklinga.

AFP

Í Rússlandi hefur forseti landsins, Vladimír Pútín, framlengt vinnustöðvun til loka apríl en um 3.500 hafa greinst með kórónuveiruna þar í landi. Stór hluti Rússa er í sóttkví. Taílensk yfirvöld ákváðu þá að herða aðgerðir og frá og með deginum í dag er útgöngubann í gildi í landinu.

AFP

Veiran er byrjuð að herja á þróunarlöndin og vara sérfræðingar við hryllingnum sem því getur fylgt. Í löndum þar sem fólk býr við sára fátækt, hungur og skort á öllum nauðsynjum, þar á meðal heilbrigðisþjónustu.

Í norðausturhluta Nígeríu segja hjálparstarfsmenn að hætta sé á að hamförum þegar veiran gerir strandhögg í flóttamannabúðum þar sem 1,8 milljónir búa; fólk sem hefur hrakist að heiman vegna ofbeldisverka vígasamtakanna Boko Haram. „Það er ekkert heilbrigðiskerfi þar til að takast á við veiruna. Hún mun fara eins og eldur í sinu og hafa áhrif á alla,“ segir starfsmaður Sameinuðu þjóðanna í búðunum við AFP-fréttastofuna.


 

mbl.is