Staðan að skána á Spáni

AFP

Þrátt fyrir að yfir 900 hafi látist á Spáni undanfarinn sólarhring vegna kórónuveirunnar er eins og að það sé farið að hægja á dauðsföllum sem og ný smitum þar í landi. Þjóðverjar sem ekki virða 1,5 metra fjarlægðarregluna eiga von á 500 evra sekt.

Á Spáni létust 932 síðasta sólarhringinn sem þýðir að alls eru 10.935 látnir þar. Staðfest smit eru nú 117.710 talsins. Þessar tölur sýna að það er farið að hægja á bæði ný smitum sem og andlátum. Nýjum smitum fjölgaði um 6,8% á milli daga samanborið við 7,9% í gær og 20% um miðja síðustu viku.

Hvað varðar dauðsföll hefur fjölgun þeirra einnig hægt á sér og er 9,3% í dag en var 10,5% í gær og 27% 25. mars.

AFP

Yfirvöld í Þýskalandi segja að aðgerðir til varnar kórónuveirunni séu að skila árangri en yfir 79 þúsund smit hafa verið staðfest í landinu og 1.017 eru látnir.

Eitt af nýmælum í fyrirmælum þýskra stjórnvalda er að þeir sem standa of nálægt öðru fólki eiga á hættu að þurfa að greiða 500 evrur í sekt. Það svarar til 78 þúsund króna. Lögreglan mun fylgjast með því að fólk virði reglurnar og eins að fólk má ekki koma saman í stærri hópum en tveir. 

Í Þýskalandi er fólk beðið um að halda sig heima nema í undantekningartilfellum. Svo sem ef fólk þarf að kaupa í matinn eða fara til læknis. Jafnframt er heimilt að hreyfa sig útivið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert