Á skíðum heima í stofu

Philipp Klein Herrero.
Philipp Klein Herrero. Skjáskot af YouTube

Þegar Philipp Klein Herrero varð að hætta við skíðafríið vegna kórónuveirunnar ákvað hann að endurhanna leyfið heima hjá sér í Barcelona.

Niðurstaðan er 57 sekúndna löng mynd um vetrarleyfi sem nefnist „Freeride at home“ og hefur slegið í gegn á netinu. Myndin er tekin á myndavél sem föst er í lofti íbúðarinnar og sýnir Herrero á skíðum, í ísklifri og fleiru sem yfirleitt er stundað utandyra. 

„Daginn sem lýst var yfir útgöngubanni á Spáni átti ég að fara með rútu til La Grave í Frakklandi þar sem ég ætlaði að vera á skíðum með fjölskyldu minni,“ segir Herrero sem er verkfræðingur hjá spænska bílaframleiðandanum SEAT. Hann segist hafa sparað fyrir skíðaferðinni í ár og allt hafi verið skipulagt í þaula.  

„Ég hefði getað farið með rútunni en þegar ég sá hvað ástandið versnaði með hverri mínútu sem leið ákvað ég að það væri siðlaust að fara í skíðaferð þegar fólk væri að deyja á Spáni,“ bætir hann við.

Á sama tíma og Herrero hékk heima í útgöngubanni var það eina sem hann gat hugsað um að fara á skíði þannig að hann fór að íhuga hvernig væri hægt að gera það án þess að yfirgefa íbúðina og myndskeiðið varð til.

mbl.is