Dauðsföllum fer fækkandi á Spáni

Eitthvað virðist vera að hægja á útbreiðslu kórónuveirunnar á Spáni.
Eitthvað virðist vera að hægja á útbreiðslu kórónuveirunnar á Spáni. AFP

Annan sólahringinn í röð fækkar dauðsföllum á Spáni af völdum kórónuveirunnar, en síðastliðinn sólarhring létust 809 einstaklingar. Tala látinna á Spáni af völdum veirunnar er þá komin upp í 11.744. Aðeins á Ítalíu hafa orðið fleiri dauðsföll. AFP-fréttastofan greinir frá.

Þá virðist einnig vera að hægja á útbreiðslu veirunnar á Spáni en nú hafa samtals 124.736 smit verið staðfest og 34.211 hafa náð sér.

Madríd hefur orðið verst úti vegna veirunnar en þar hafa 29 prósent allra smita komið upp og 4.723 látist.

Forsætisráðherra landsins, Pedro Sanchez, á eftir að taka ákvörðun um það hvort strangt útgöngubann sem á að gilda fram í miðjan apríl verði framlengt út aprílmánuð, en flestir búast við því að það verði gert enda ástandið enn mjög slæmt.

Útgöngubannið hefur verið í gildi frá því 14. mars en mbl.is ræddi í gær við Sigurð Andra Hjörleifsson, sem býr í borginni Elche á Spáni, þar sem hann lýsti auðum götum og sírenuvæli. Hann var sjálfur stöðvaður af lögreglunni þegar hann var á leið á heilsugæslustöðuna, en honum var bent á að fara hliðargötur ef hann ætti brýnt erindi þangað. Lögreglan tekur mjög hart á því geti fólk ekki gert grein fyrir ferðum sínum og sektir eru háar.

mbl.is

Kórónuveiran

2. júní 2020 kl. 16:26
2
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir