Fimm ára drengur meðal látinna

AFP

Aldrei hafa jafn margir látist á einum sólarhring úr kórónuveirunni í Bretlandi og síðasta sólarhringinn. Meðal þeirra 708 sem létust er fimm ára gamall drengur.

Samkvæmt upplýsingum frá breska heilbrigðisráðuneytinu eru 4.313 látnir en staðfest smit eru 41.903 og hefur þeim fjölgað um rúmlega 3.900 á einum sólarhring. Tala látinna hefur hækkað jafnt og þétt alla vikuna og er gert ráð fyrir að hátindinum verði náð undir lok næstu viku. 

AFP

Af þeim sem létust síðasta sólarhringinn eru flestir búsettir á Englandi eða 637, samkvæmt upplýsingum frá NHS. Þeir sem létust eru frá fimm ára upp í 104 ára. 40 af 637 voru á aldrinum 48-93 ára og voru ekki með undirliggjandi sjúkdóma. Ekki verða veittar frekari upplýsingar um litla drenginn að beiðni foreldranna. 

Í síðustu viku lést 13 ára gamall drengur búsettur í London, Ismail Mohamed Abdulwahab, nokkrum dögum eftir að hann greindist. Að sögn fjölskyldu hans var hann ekki með undirliggjandi sjúkdóma. Móðir hans og systkini hans eru nú orðin veik af veirunni.

Af þeim 4.313 sem eru látnir eru sjö heilbrigðisstarfsmenn. 

AFP

Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, sem er smitaður af kórónuveirunni, fyrirskipaði útgöngubann að mestu frá 23. mars til að draga úr líkum á smiti. Óttast er að fólk virði það að vettugi um helgina þar sem veðrið er afar gott víða og hætta á að fólk laumi sér í almenningsgarða til að njóta veðurblíðunnar.

Heilbrigðisráðherra Bretlands, Matt Hancock, varar við því að fólk slaki á samkomubanninu og haldi ekki fjarlægð sín á milli. „Ef það er gert þá mun fólk deyja.“

Annað kvöld mun Elísabet Englandsdrottning ávarpa þjóð sína.

mbl.is